Danskur sæðisgjafi með erfðasjúkdóm

mbl.is

Kröfur hafa verið settar fram í Danmörku um að reglur um sæðisbanka verði hertar eftir að í ljós kom að mæður nokkurra barna sem fengu gjafasæði fæddu börn með alvarlegan genagalla. Af 43 börnum sem maðurinn hefur eignast hafa a.m.k. níu erft erfðagalla frá manninum.

Danska ríkissjónvarpið fjallaði um þetta mál. Í þættinum komu saman fimm hálfsystkini, sem eru synir og dætur sæðisgjafans. Að minnsta kosti níu barna hans hafa erft stökkbreytt gen sem veldur svokölluðum NF-1 sjúkdómi. Sjúkdómurinn er einnig kallaður von Recklinghausen-heilkennið.

Ekki er alltaf hægt að rekja þennan sjúkdóm til foreldra barnsins, en Peter Bower, forstöðumaður sæðisbankans (Nordisk Cryobank), segir alveg ljóst að þessi fimm börn hafi fengið sjúkdóminn frá blóðföður.

Sæði frá manninum var selt til 10 landa, innan og utan Evrópu. Bower segist ekki hafa heimild til að gefa upplýsingar hvar þessi börn hafi fæðst.

Danska ríkissjónvarpið segir að maðurinn eigi 43 börn og sæði úr honum hafi farið til 14 stofnana sem framkvæmi tæknifrjóvganir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert