Opinber rannsókn á söngleik

Átök milli trúaðra og trúleysingja hafa aukist í Rússlandi eftir …
Átök milli trúaðra og trúleysingja hafa aukist í Rússlandi eftir átökin í kringum Pussy Riot pönkhljómsveitina. Ómar Óskarsson

Leikhús í sunnanverðu Rússlandi hefur hætt miðasölu á söngleikinn Jesus Christ Superstar eftir að yfirvöld fyrirskipuðu að opinber rannsókn færi fram á hvort söngleikurinn skrumskæli Jesú Krist.

Fyrirætlað var að rokkópera Sankti Pétursborgar myndi frumsýna verkið þann 18. október í húsnæði fílharmóníunnar í borginni Rostov-on-Don í suðurhluta Rússlands, en ljóst er að af því verður ekki. Jesus Christ Superstar hefur oft verið sýndur í Rússlandi

Söngleikurinn, sem er afrakstur samstarfs Andrew Lloyd Webber og Tim Rice, hefur aldrei verið umdeildur þar í landi fyrr en hópur íbúa í Rostov-on-Don mótmælti sýningunni. Halda íbúarnir því fram að í söngleiknum sé dregin upp skökk mynd af Jesú Kristi. 

„Rannsóknin er hafin, og ákvörðun verður tekin eftir að niðurstöður hennar liggja fyrir,“ sagði talsmaður saksóknara í viðtali við Interfax fréttastofuna. 

„Alvarleg vanhelgun“

Miðasölu hefur í kjölfarið verið hætt, og verður henni aðeins haldið áfram ef niðurstaða rannsóknarinnar verður sú að viðeigandi sé að sýna söngleikinn. 

Við erum slegin yfir því að einhver krefjist þess að hætt verði við uppfærsluna,“ sagði starfsmaður fílharmóníunnar við fjölmiðla. „Á mánudag kemur í ljós hvort verkið verði sýnt,“ bætti hann við. 

Á bak við kvörtunina standa 18 íbúar bæjarins og í henni kemur fram að sú mynd sem dregin sé upp af Kristi í verkinu sé fölsk út frá sjónarhóli kristinnar trúar. „Verkið er alvarleg vanhelgun,“ sagði enn fremur í skýrslunni. 

Deilurnar um sýningu söngleikjarins eiga sér stað í spennuhlöðnu andrúmslofti milli trúaðra og trúleysingja eftir að dómur féll yfir Pussy Riot pönkhljómsveitinni sem spilaði tónlist sína í dómkirkjunni í Moskvu. Enn er mikill hiti í trúarumræðum í Rússlandi og má leiða líkur að því að kvörtunin undan söngleiknum tengist því óbeint. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert