Grikkir komnir að þolmörkum

Frá mótmælum starfsmanna skipasmíðastöðvar í Grikklandi í gær. Þeir höfðu …
Frá mótmælum starfsmanna skipasmíðastöðvar í Grikklandi í gær. Þeir höfðu ekki fengið laun sín greidd og brutust inn í varnarmálaráðuneyti landsins til að leggja áherslu á kröfur sínar. AFP

Stjórnvöld í Grikklandi geta ekki farið fram á það við landsmenn að þeir samþykki frekari niðurskurðaraðgerðir. Þetta segir Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Samaras, sem birtist í þýska dagblaðinu Handelsblatt í dag. Þar leggur hann áherslu á að Grikkjum sé gefinn of naumur tímarammi til að koma niðurskurðaráætlunum sínum í framkvæmd, þeir þurfi að fá meiri tíma og það gæti verið árangursríkara en að fá meira fé að láni.

Spurður að því hversu lengi Grikkir myndu þrauka án frekari lánsfjár sagðist Samaras sagðist óttast að það yrði í mesta lagi fram í lok næsta mánaðar. „Þá eru fjárhirslurnar tómar.“

„Ég hvorki vil né get neitað því; Grikkland stendur frammi fyrir mestu áskorun sinni,“ sagði Samaras.

Grikkir þurfa sárlega á 31,5 milljarða evru láni að halda. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa heitið Grikkjum þessu láni en krefjast í staðinn aðhalds og niðurskurðar af hálfu Grikkja. 

„Sá niðurskurður sem við höfum þegar farið í gegnum nær inn að beini. Nú erum við komin að mörkum þess sem við getum farið fram á af landsmönnum,“ sagði Samaras. „Fólk segist vera tilbúið til að færa fórnir en það vill líka sjá ljós við enda ganganna.“

Í viðtalinu líkti hann ástandinu við gang mála í Þýskalandi eftir heimstyrjöldina fyrri, þegar Adolf Hitler komst til valda vegna mikilla skulda Þjóðverja. „Þetta snýst um samstöðuna í samfélaginu, sem er ógnað vegna vaxandi atvinnuleysis, líkt og við lok Weimar lýðveldisins í Þýskalandi.“

„Það sem við þurfum er meiri tími til að ráða ráðum okkar, ekki endilega meiri fjárhagsaðstoð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert