Hótar að sprengja ítölsku ríkisstjórnina

Silvio Berlusconi hélt blaðamannafund á Ítalíu í dag.
Silvio Berlusconi hélt blaðamannafund á Ítalíu í dag. AFP

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hefur hótað að sprengja ítölsku ríkisstjórnina sem Mario Monti leiðir. Berlusconi segir að stjórnvöld séu að leiða ítölsku þjóðina í vítahring kreppu og að Frelsisflokkurinn (flokkur Berlusconi) muni ákveða á næstu dögum hvort hann muni styðja stjórnina eður ei.

Frelsisflokkurinn er stærsti flokkurinn á ítalska þinginu og endanleg niðurstaða gæti leitt til þess að flýta verði þingkosningum í landinu, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Berlusconi var neyddur til að segja af sér í fyrra. Í gær hlaut hann fjögurra ára fangelsisdóm fyrir skattsvik, en dómurinn var fljótlega mildaður í eins árs fangelsi.

Búist er við því að Berlusconi muni áfrýja dómnum.

Berlusconi lét ummælin falla á blaðamannafundi í dag. Á sama tíma komu þúsundir saman í Róm til að mótmæla aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnar Montis.

Berlusconi sakar stjórnvöld um „efnahagslega fjárkúgun“ gagnvart almenningi í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert