„Óþekkum konum“ nauðgað með glóandi járnstöngum

Kim Khem sýnir örin á handleggjum sínum. Hermenn brenndu hana …
Kim Khem sýnir örin á handleggjum sínum. Hermenn brenndu hana með glóandi járnstöng. AFP

Í þrjá áratugi hafa ör á handlegg Kim Khem minnt hana á það kynferðislega ofbeldi sem hún varð fyrir undir stjórn Rauðu khmeranna. Núna er hún orðin áttræð og segir loks frá þeim hryllingi sem hún þurfti að þola.

„Þeir gerðu slæma hluti og ef ég held áfram að fela það er það eins og að skjóta skjólhúsi yfir óvin í þorpinu mínu,“ segir hún um hermenn Rauðu khmeranna sem ógnuðu kvenkyns föngum sínum er voru í varðhaldi í Kambódíu seint á áttunda áratugnum.

 „Einn daginn komu hermenn inn með glóandi járnstöng og báðu um „óþekkar konur“,“ rifjar hún upp. Hún lýsir grófu kynferðislegu ofbeldi sem ein konan var beitt með þessu verkfæri hermannanna.

Hermennirnir notuðu svo þessa sömu járnstöng til að brenna hana sjálfa á höndunum að sögn Kim sem grætur á meðan hún hneppir skyrtunni frá og sýnir þykk og mikil ör á húðinni.

Flestar þeirra kvenna sem urðu fyrir kynferðisofbeldi af hálfu Rauðu khmeranna hafa þagað um ofbeldið í gegnum tíðina. En undanfarið hafa nokkrar þeirra stigið fram og sagt sögu sína frá tímabili sem kallað er „morðakur“. Um tvær miljónir manna voru pyntaðar til dauða, teknar af lífi eða sveltar til bana í valdatíð Rauðu khmeranna.

Kim segir að hún hafi lifað af fangelsisdvölina í suðurhluta Takeo-héraðs en það sama gilti ekki um 600 samfanga hennar. Kim var talin látin og hent ofan í fjöldagröf. Vörðunum sem gengu frá gröfinni brá er í ljós kom að hún var enn á lífi. Hún sagði loks sögu sína á málþingi í Phnom Penh í síðasta mánuði.

„Ég tala fyrir hönd allra þeirra kvenna sem létu lífið,“ sagði gamla konan við þá 400 gesti sem sóttu málþingið.

Hún tárfelldi á meðan hún rifjaði upp þegar hver konan á fætur annarri var tekin úr fangelsinu svo að hermennirnir gætu „leikið sér að þeim“. Þær snéru aldrei aftur. Hún segist ekki hafa orðið vitni að nauðgununum en „ég heyrði öskrin“.

Kim ákvað að segja sögu sína eftir að hafa sótt sannleiksþing svokallað í desember á síðasta ári sem haldið var af samtökunum Cambodian Defenders Project (CDP).

„Kynferðisofbeldi undir stjórn Rauðu khmeranna var útbreitt en það hefur verið lítið rannsakað,“ segir Duong Savorn hjá CDP sem hefur skipulagt fjölda viðburða til að vekja athygli á málefninu.

 Pol Pot fór fyrir Rauðu khmerunum sem gjörbreyttu kamódísku samfélagi í valdatíð sinni á árunum 1975-1979. Borgararnir voru látnir vinna í þrælabúðum, fjölskyldum var tvístrað. Tilgangurinn var að búa til fyrirmyndar samfélag í anda kommúnismans.

Þrír helstu leiðtogar khmeranna sem enn eru á lífi eru nú fyrir stríðsglæpadómstól sem Sameinuðu þjóðirnar settu á fót. Hvergi er komið inn á kynferðisglæpi þeirra í ákærunni fyrir utan nauðganir í þvinguðum hjónaböndum sem Rauðu khmerarnir skipulögðu.

Dómarar hafa sagt að önnur meint kynferðisbrot tengist ekki hinum ákærðu þar sem það hafi verið yfirlýst stefna Rauðu khmeranna að koma í veg fyrir nauðganir og refsa fyrir slík brot. Saksóknarar í málinu eru ekki sammála þessari túlkun dómaranna og segja að „þúsundir borgara hafi verið fórnarlömb nauðgana og annarra kynferðisbrota sem voru samþykkt eða látin óátalin af yfirvöldum“.

  Duong hefur nú skrifað bók með sögum fórnarlambanna sem kom út á síðasta ári og vonast til að fleiri eigi eftir að stíga fram í kjölfar umræðunnar síðustu mánuði. Það eigi jafnt við um fólk í Kambódíu og öðrum löndum.

„Það er engin von til þess að dómstólinn (sem fjallar um Rauðu khmerana) taki á kynbundnu ofbeldi. Þess vegna erum við að gera þetta. Að ljá þessu fólki sem varð fyrir kynferðisofbeldi rödd svo að sár þeirra geti gróið og þau fundið fyrir réttlæti utan dómstólanna,“ segir hann.

Kim var fangelsuð fyrir að dirfast að syrgja móður sína og eiginmann. Hún segir að það hafi verið sársaukafullt og erfitt að segja sögu sína í fyrsta sinn. Það hafi þó verið nauðsynlegt.

„Ég var hrædd um að börnin mín myndu skammast sín vegna fortíðar minnar. En það var þungt að burðast með þetta,“ segir hún.

Önnur kona sagði einnig frá reynslu sinni á málþinginu. Hong Savath var aðeins fjórtán ára er hún varð fyrir hópnauðgun. Þrír hermenn Rauðu khmeranna nauðguðu henni þar til hún missti meðvitund og var skilin eftir nær dauða en lífi úti í skógi.

Hún fæddi son fjórum mánuðum eftir að Rauðu khmerunum var komið frá völdum.

„Sem ógift móðir gat ég ekki falið þá staðreynd að mér hafði verið nauðgað,“ segir Hong sem  nú er 48 ára gömul. „Sumum fannst þetta í lagi en ég fann fyrir fordómum annarra.“

Hong tekur nú þátt í málsókn gegn fyrrverandi foringjum stjórnarinnar vegna dauða ættingja hennar. Hún segist ósátt við að dómstóllinn vilji ekki taka hennar eigin reynslu með í reikninginn. Með því að taka þátt í málþinginu fái hún þó einhvern frið í sál sinni.

„Ef við segjum ekkert munum við sjá eftir því allt okkar líf. Við verðum að segja heimsbyggðinni að Kambódíumenn urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi í valdatíð Rauðu khmeranna.“

En ekki eru allir sammála um að það sé nóg að tala opinskátt um hlutina. Refsa þurfi ofbeldismönnunum fyrir glæpi sína. Í lok málþingsins stóð öldruð kona upp úr sæti sínu og bað um hljóðið.

„Ég get ekki lýst öllum þjáningum mínum, það yrði of mikið,“ sagði hún og spurði hvernig í ósköpunum fórnarlömbin ættu að finna huggun.

„Rauðu khmera réttarhöldin verða bráðum yfirstaðin og yfirvöld hafa enn sem komið er ekki tekið kynferðisofbeldið alvarlega,“ sagði hún.

„Við finnum fyrir vonbrigðum.“

Fjöldi fólks á málþingi um kynferðisofbeldi í tíð Rauðu khmeranna.
Fjöldi fólks á málþingi um kynferðisofbeldi í tíð Rauðu khmeranna. AFP
Hong Savath var nauðgað af þremur hermönnum er hún var …
Hong Savath var nauðgað af þremur hermönnum er hún var 14 ára gömul. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert