Sofnaði og olli dauða 47 barna

47 börn létust í gær er lest ók á miklum hraða á skólabíl í Egyptalandi vegna þess að lestarumferðarstjóri hafði sofnað á vaktinni.

Samgönguráðherrann Rashad al-Metini hefur sagt af sér vegna málsins og segist axla ábyrgð á þessu hörmulega slysi.

Þá sagði yfirmaður lestanna í Egyptalandi einnig af sér.

Alls lést 51 í árekstrinum, þar af 47 skólabörn. Einnig lést rútubílstjórinn, tveir leiðbeinendur og einn vegfarandi.

Börnin voru á aldrinum 4-12 ára. Börnin voru alls 60 talsins í rútunni og á leið í skólaferðalag er lestin ók á skólabílinn í Manfalut, 360 kílómetrum frá Kaíró.

Maðurinn sem standa átti vörð í hliðinu sem opnaði fyrir umferð yfir lestarteinana var sofandi og hafði skilið hliðið eftir opið er slysið átti sér stað. Hann hefur verið handtekinn.

Foreldrar barnanna hafa mótmælt harðlega í nágrenni slysstaðarins. Kveikt var í dekkjum á lestarteinunum til að stöðva umferð lestanna.

„Við munum ekki fara héðan fyrr en við fáum réttlæti fyrir börnin okkar,“ segir Mustafa Abuloyun. Hann segir að oft hafi verið bent á hættuna á lestarteinunum en yfirvöld hafi ekkert gert til að bæta ástandið.

Aðrir eru ósáttir við að hjálpin hafi komið of seint á slysstaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert