14 teknir af lífi á tveimur dögum

Frá Afganistan
Frá Afganistan AFP

Sex dæmdir glæpamenn og hryðjuverkamenn voru teknir af lífi í Kabúl, höfuðborg Afganistan í dag. Átta fangar voru hengdir í Afganistan í gær en aftökur eru ekki lengur algengar í Afganistan líkt og þær voru áður.

Talibanar hafa varað við því að þeir muni grípa til hefnda ef einhverjir liðsmanna þeirra verða teknir af lífi.

Forseti Afganistan, Hamid Karzai, staðfesti að sexmenningarnir yrðu teknir af lífi en þeir höfðu verið dæmdir til dauða fyrir hryðjuverk, árásir, sprengjutilræði og að hafa skipulagt sjálfsvígsárásir, samkvæmt tilkynningu frá stjórnvöldum.

Talibanar sögðu í yfirlýsingu að ef liðsmenn þeirra, sem þeir nefnda stríðsfanga, yrðu teknir af lífi myndu þeir hefna sín með árásum á opinberar byggingar. Hvöttu talibanar Sameinuðu þjóðirnar, Samtök íslamskra ríkja, Rauða krossinn og alþjóðleg mannréttindasamtök til að koma í veg fyrir aftökurnar.

Aftökur í hálfleik

Talibanar, sem voru hraktir frá völdum í Afganistan þegar Bandaríkjaher réðst inn í landið í fyrir ellefu árum, hikuðu ekki við að taka fólk af lífi er þeir voru við völd. Meðal annars fyrir hjúskaparbrot. Fóru aftökurnar oft fram í hálfleik á helsta knattspyrnuvelli Kabúl-borgar.

Evrópusambandið og alþjóðleg mannréttindasamtök fordæmdu aftökurnar í gær og hvöttu stjórnvöld til þess að stöðva frekari aftökur. Þeir sem voru teknir af lífi í gær voru dæmdir til dauða fyrir morð, mannrán og nauðganir.

Þrír þeirra sem voru teknir af lífi í dag voru dæmdir fyrir skipuleggja sjálfsvígsárásir í Kabúl sem kostuðu átta lífið, tveir voru dæmdir til dauða fyrir að hafa myrt tvo afganska starfsmenn SÞ og einn var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt 11 opinbera starfsmenn.

Sjálfsvígsárásir í Kjúklingastræti

Meðal sjálfsvígsárása sem mennirnir voru dæmdir fyrir var árás á Kjúklingastræti þar sem tveir útlendingar létust og ung afgönsk stúlka. Ekki kemur fram í gögnunum frá stjórnvöldum hvenær sú árás var gerð en þann 23. október árið 2004 slösuðust þrír íslenskir friðargæsluliðar  í sprengjuárás talíbana í Kjúklingastræti í Kabúl í Afganistan. Tveir létust í þeirri árás  afganskt barn og ung bandarísk kona. Tilræðið beindist gegn íslenskum friðargæsluliðum sem hugðust kaupa sér teppi.

Eins og áður sagði eru aftökur fátíðar í Afganistan í dag. Árið 2004 var einn maður tekinn af lífi, árið 2007 voru fimmtán teknir af lífi, sjö árið 2008 og á síðasta ári voru tveir teknir af lífi. Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International eru um 200 fangar á dauðadeild í Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert