Hvatt til stillingar í Egyptalandi

Morsi ávarpaði fjöldafund í dag þar sem hann sagðist vera …
Morsi ávarpaði fjöldafund í dag þar sem hann sagðist vera að leiða Egyptaland í átt til frelsis og lýðræðis AFP

Bandaríkjastjórn segir að ákvörðun Mohamed Morsi, forseta Egyptalands, um að taka sér aukin völd sé áhyggjuefni. Andstæðingar forsetans hafa staðið fyrir mótmælum víða í Egyptalandi í dag og hefur slegið í brýnu á milli þeirra og stuðningsmanna Morsis. Bandaríkin hvetja menn til að halda ró sinni.

Victoria Nuland, talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins, segir að margir Egyptar séu áhyggjufullir í kjölfar yfirlýsingar forsetans frá því í gær. Það sama eigi við um alþjóðasamfélagið.

Hún segir að eitt af markmiðum byltingarinnar í Egyptalandi, sem leiddi til falls Hosni Mubaraks, fyrrverandi forseta landsins, hafi verið að sjá til þess að valdinu yrði dreift. Það yrði ekki í höndum eins manns eða stofnunar. 

Nuland segir mikilvægt að Egyptar komist að samkomulagi um nýja stjórnarskrá, en nú ríki stjórnarskrárlegt tómarúm í landinu.

„Við köllum eftir friði og hvetjum alla hlutaðeigandi til að starfa saman. Þá hvetjum við alla Egypta til að leysa deilar sem snúa að þessum mikilvægu málum með friði og á lýðræðislegan hátt,“ sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert