Skotland yrði utan Evrópusambandsins

Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, hefur kallað eftir skosku sjálfstæði.
Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, hefur kallað eftir skosku sjálfstæði. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, undirstrikaði í samtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag að ný ríki yrðu að sækja um inngöngu í sambandið og vísaði þar til þess ef Skotland segði skilið við breska konungdæmið og lýst yfir sjálfstæði.

Barroso sagði ljóst að ef til þess kæmi væri Skotland orðið að nýju ríki og yrði þar með að sækja um inngöngu í ESB utan frá og semja síðan um það frá grunni. Bretland án Skotlands yrði hins vegar áfram hluti af sambandinu. Þetta gengur þvert á fullyrðingar forystumanna skosku heimastjórnarinnar sem hafa haldið því fram að Skotland yrði áfram aðili að ESB þó það yrði ekki lengur hluti af Bretlandi.

Haft er eftir Nicola Sturgeon, aðstoðarforsætisráðherra Skotlands, í frétt BBC að skosk stjórnvöld væru ekki sammála Barroso enda yrði landið enn hluti af ESB þó niðurstaða þjóðaratkvæðis yrði skoskt sjálfstæði. Þá væri hvergi gert ráð fyrir því í sáttmálum sambandsins að hægt væri að vísa ríki úr því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert