Sveitarfélag kaupir strípibúllu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Sveitastjórn smábæjarins Barnarp í suðurhluta Svíþjóðar keypti nýlega meintan nektardansstað í bænum fyrir 3,1 milljón sænskra króna, en það jafngildir rúmum 60 milljónum íslenskra króna.

Ástæðan fyrir kaupunum er sú að íbúar bæjarins hafa árum saman reynt að losna við hinn meinta nektardansstað úr bænum. Þannig hafa íbúarnir skipulagt mótmæli, undirskriftasafnanir og ítrekað sent bæjaryfirvöldum kvörtunarbréf, án árangurs. Þá gerðu lögreglu- og skattyfirvöld húsleit á staðnum fyrr í haust vegna gruns um að staðarhaldarinn væri að halda nektardanssýningar án tilskilins leyfis.

Sveitarfélagið gat þó ekki látið bera starfsemi staðarins út enda var það ekki eigandi fasteignarinnar þar sem staðurinn var til húsa. Fyrrverandi eigandi fasteignarinnar ákvað þó á endanum að bera starfsemina út eftir að embættismenn sveitarfélagsins höfðu samband við hann.

Þá festi sveitarfélagið kaup á fasteigninni síðastliðinn föstudag og greiddi eins og áður segir 3,1 milljón sænskra króna fyrir hana. Enn hefur ekki verið ákveðið hvaða starfsemi verður þar framvegis til húsa.

Nánar má lesa um málið á fréttavefnum The Local.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert