Aukinn stuðningur við hjónabönd samkynhneigðra

AFP

Tæplega tveir þriðju allra Breta styðja hjónabönd samkynhneigðra samkvæmt könnun sem birt var í dag. Hefur stuðningur við hjónabönd samkynhneigðra aukist í Bretlandi á undanförnum árum.

Alls sögðust 62% aðspurðra styðja hjónabönd samkynhneigðra í könnun sem breska blaðið Guardian birti í dag. 31% aðspurðra sagðist andsnúið því að samkynhneigðir fengju að ganga í hjónaband. 7% höfðu ekki myndað sér skoðun.

Meirihluti stuðningsmanna Íhaldsflokksins styður hjónabönd samkynhneigðra en David Cameron forsætisráðherra hefur verið harður stuðningsmaður löggjafar þar að lútandi en margir af þingmönnum Íhaldsflokksins ekki verið á sömu skoðun. 52% þeirra sem kusu Íhaldsflokkinn árið 2010 styðja lagasetningu um að heimila hjónabönd samkynhneigðra en 42% þeirra sem kusu Íhaldsflokkinn eru á móti hjónaböndum samkynhneigðra. 

Svo virðist sem stuðningur við hjónabönd samkynhneigðra hafi aukist jafnt og þétt í Bretlandi því í könnun sem birt var í mars voru 45% sammála slíkri löggjöf en 36% voru á móti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert