Varaði við uppgangi fasisma í kreppunni

Albert II konungur af Belgíu stillir sér upp fyrir árlegt …
Albert II konungur af Belgíu stillir sér upp fyrir árlegt jólaávarp sitt. AFP

Jólaræða Alberts II konungs af Belgíu hefur vakið misjöfn viðbrögð þar í landi, en konungurinn varaði við hættunni á uppgangi fasisma í kreppunni líkt og á 4. áratug síðustu aldar. Aðskilnaðarsinnar í Belgíu telja hann eiga við þá og eru ævareiðir.

Albert II varaði í ræðu sinni við lýðskrumurum sem leiti blóraböggla vegna erfiðleikanna í efnahagslífinu. Konungurinn sagði að „á þeim erfiðu tímum sem við lifum nú þurfum við að vera á varðbergi og sjá í gegnum málflutning lýðskrumara“. Hann sagði lýðskrumara finna blóraböggla ýmist í útlendingum eða í samlöndum sínum úr andstæðum fylkingum.

Slíkur hugsunarháttur fyrirfinnst ekki bara í Belgíu að sögn konungsins heldur í öðrum Evrópulöndum líka og klykkti hann út með því að minna á að „kreppan á 4. áratugnum og lýðskrumið sem urðu viðbrögðin við henni mega ekki gleymast“.

Gjáin milli flæmska hluta Belgíu í norðri og þess franska í suðri hefur dýpkað að undanförnu og þær raddir hækkað sem mæla fyrir aðskilnaði. Leiðtogi aðskilnaðarsinna í flæmska hluta Belgíu, Bart De Wever, tók ræðu konungsins til sín og hefur samkvæmt BBC látið hafa eftir sér að konungurinn hafi farið út fyrir valdsvið sitt.

De Wever sakar einnig forsætisráðherra Belgíu, Elio Di Rupo, um að „fela sig í skjóli krúnunnar“, þar sem hann hljóti að hafa séð ræðuna og gefið henni grænt ljós. „Di Rupo vill ekki segja sjálfur að ég sé fasisti, en hann virðist telja það og leyfir konunginum að segja það,“ sagði De Wever í útvarpsviðtali.

Fleiri hafa gagnrýnt konunginn fyrir varnaðarorðin og segir m.a. prófessor Carl Devos við háskólann í Ghent að konungurinn hafi gengið of langt með því að draga upp líkingu við fasisma 4. áratugarins. Aðrir hafa komið konunginum til varnar og sagt að orð hans hafi í reynd verið samhljóða jólaávörpum  fleiri Evrópuleiðtoga og sjálfsagt sé að hann vari almenning við lýðskrumi.

Bart De Wever leiðtogi aðskilnaðarsinna í flæmska hluta Belgíu og …
Bart De Wever leiðtogi aðskilnaðarsinna í flæmska hluta Belgíu og borgarstjóri í Antwerpen. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert