Skyldaðir til að sinna öldruðum foreldrum

Eldri maður í Yunnan héraði í Kína eldar hádegisverð fyrir …
Eldri maður í Yunnan héraði í Kína eldar hádegisverð fyrir utan heimili sitt. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

Kínversk stjórnvöld hafa samþykkt ný lög sem skylda fólk til að heimsækja aldraða foreldra sína reglulega eða vera stefnt fyrir dóm ella.

Ekki er tilgreint í lögunum hversu tíðar heimsóknirnar skuli vera til að teljast fullnægjandi, en varað er við því að brugðist verði hart við vanrækslu.

Rannsóknir benda til þess að sífellt fleiri aldraðir Kínverjar séu félagslega einangraðir og vanræktir af börnum sínum. Fyrr í þessum mánuði sögðu kínverskir ríkisfjölmiðlar frá því að kona á tíræðisaldri hefði verið þvinguð af syni sínum til að hafast við í svínastíu undanfarin tvö ár.

Dagblöð í Kína eru full af fréttum af svipuðum toga, af fólki sem vanrækir foreldra sína eða reynir að hafa af þeim fé, sem og af eldri borgurum sem deyja á heimilum sínum án þess að nokkur verði við það var fyrr en löngu síðar.

Fram kemur á vef BBC að ör samfélagsþróun í Kína hafi haft skaðleg áhrif á hefðbundin fjölskyldutengsl. Tæplega 167 milljónir Kínverja eru yfir sextugu og rúmur helmingur þeirra býr einn. Rúm milljón Kínverja er yfir áttræðu. Börn þeirra flytja oft víðs fjarri heimahögunum til að starfa í stórborgunum.

Erfiðleikarnir verða þeim mun meiri vegna þeirrar stefnu sem verið hefur við lýði að fólk megi aðeins eignast eitt barn. Þetta þýðir að færri af yngri kynslóðinni þurfa að vinna til að halda uppi fleirum af þeirri eldri. Lítið er um öldrunarheimili þar sem almenningur hefur efni á og búa því margir aldraðir Kínverjar einir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert