Telur að ESB gæti fallist á úrsögn Breta

Jacques Delors, fyrrum forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jacques Delors, fyrrum forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Bretland gæti yfirgefið Evrópusambandið og tekið þess í stað upp laustengdara efnahagslegt samstarf við sambandið á sama tíma og evrusvæðið þróaðist yfir í að verða sambandsríki. Þetta er haft eftir Jacques Delors, fyrrverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en Delors hefur oft verið kallaður arkitektinn að sambandinu eins og það þekkist í dag og evrunni.

„Bretar eru einungis að hugsa um efnahagslega hagsmuni sína, annað ekki. Það væri hægt að bjóða þeim annars konar samvinnufyrirkomulag. Ef Bretar geta ekki stutt stefnuna í átt til meiri samruna innan Evrópusambandsins getum við eftir sem áður verið vinir en þá á breyttum forsendum. Ég gæti ímyndað mér fyrirkomulag eins og evrópskt efnahagssvæði eða fríverslunarsamning,“ er ennfremur haft eftir honum og vísað í viðtal við hann í þýska viðskiptablaðinu Handelsblatt.

Þá er að lokum haft eftir Delors að Frakkland gæti verið reiðubúið að styðja það að Bretum yrði „sleppt lausum“ úr Evrópusambandinu enda gæti það orðið til þess að auka áhrif Frakka innan sambandsins á sama tíma og stefnt sé að því að breyta því í fjármálalegt- og stjórnmálalegt bandalag árið 2014 vegna efnahagserfiðleikanna á evrusvæðinu, en Delors er sjálfur franskur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert