Vilja banna reykingar á heimilum og í bílum

Rúmlega 80% fullorðinna Norðmanna telja að banna ætti reykingar á …
Rúmlega 80% fullorðinna Norðmanna telja að banna ætti reykingar á heimilum þar sem börn eru búsett. mbl.is/Golli

Rúmlega 80% fullorðinna Norðmanna telja að banna ætti reykingar á heimilum þar sem börn eru búsett. Tæp 90% telja að banna ætti reykingar í bílum.

Þetta eru niðurstöður könnunar sem gerð var á vegum heilbrigðiseftirlits Noregs. 

„Mörg börn líða fyrir óbeinar reykingar, annaðhvort á eigin heimilum eða annars staðar. Að gera heimilin og bílana reyklausa er besta leiðin til að vernda börnin gegn tóbaksreyk,“ segir Anne Hafstad, deildarstjóri hjá heilbrigðiseftirlitinu, í samtali við norska dagblaðið Aftenposten.

„Foreldrar eru líka fyrirmyndir og það besta, bæði fyrir börnin og þá sjálfa, er að þeir hætti að reykja,“ segir hún.

83% þeirra sem svöruðu könnuninni telja að setja ætti lög sem banna reykingar í návist barna. 70% sögðust styðja bann við notkun reyktóbaks og munntóbaks meðal starfsfólks skóla og leikskóla á vinnutíma. 

Heilbrigðisráðuneyti Noregs hyggst gera breytingar á tóbaksvarnarlögum landsins. Ein af breytingartillögunum er að börn skuli eiga rétt á reyklausu umhverfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert