Nauðgunarákæra klýfur smábæ

Frá mótmælum við dómshúsið í Steubenville.
Frá mótmælum við dómshúsið í Steubenville.

Smábærinn Steubenville í Ohio ríki í Bandaríkjunum hefur komist í heimsfréttirnar undanfarna mánuði og ekki af góðu. Ákærur um hrottalegt kynferðisofbeldi tveggja 16 ára unglingspilta gagnvart jafnöldru sinni hafa klofið þennan 18.000 íbúa bæ í tvennt.

Stúlkan kærði piltana fyrir hrottafengna nauðgun í ágúst síðastliðnum. Þeir eru báðir í fótboltaliði menntaskóla bæjarins, en liðið er óskabarn bæjarins og liðsmenn nánast í guðatölu.

Piltarnir munu koma fyrir rétt þann 13. febrúar næstkomandi, en hafa nú verið ákærðir fyrir mannrán og nauðgun. Stúlkan hitti piltana í partýi. Þar voru henni gefin deyfilyf og síðan var farið með hana í nokkur partý þar sem henni var nauðgað ítrekað. Piltarnir höfðu þvaglát yfir hana fyrir framan hóp fólks og viðhöfðu ýmsar kynferðislegar athafnir með henni fyrir framan aðra.

Daginn eftir var stúlkan grunlaus um hvað hafði komið fyrir hana, en hún mundi ekkert vegna lyfjaneyslunnar. En þá hafði þegar fjöldi mynda og myndskeiða birst víða á netinu og þannig fréttu hún og foreldrar hennar af því sem gerst hafði.

Segja hana hafa átt ofbeldið skilið

Málið þykir hið óhugnanlegasta. Annars vegar var stúlkunni misþyrmt á sérlega grófan hátt og ljóst þykir að fjöldi ungmenna horfði á það án þess að koma henni til bjargar. 

Hins vegar hafa viðbrögð bæjarbúa vakið furðu og óhug bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra. Til dæmis hafa fjölmargir íbúar Steubenville séð sig knúna, frá því að málið kom upp, til að fullyrða á samskiptasíðum á netinu og annars staðar að stúlkan hafi átt þetta skilið og að hún hafi, með því að kæra nauðgunina, varpað rýrð á fótboltaliðið.  

Að auki voru myndbönd og myndir, sem sýna misþyrmingarnar á stúlkunni, sett í umferð á netinu af fjölda fólks skömmu eftir atburðinn. Lögregla hefur ítrekað lýst eftir vitnum af atburðum, en enginn hefur gefið sig fram þó talið sé að fjöldi fólks hafi orðið vitni að misþyrmingunum.

Margir styðja stúlkuna

En fjölmargir bæjarbúar styðja stúlkuna og segja hana fórnarlamb menningar, þar sem íþróttahetjur séu dýrkaðar og þeim sjálfum og öllum öðrum talin trú um að þeir geti ekki gert neitt rangt. Fótboltavöllurinn, þar sem menntaskólaliðið leikur, tekur 10.000 manns eða helming bæjarbúa og hann er ávallt þéttsetinn. Leikir liðsins eru hápunktur vikunnar hjá mörgum bæjarbúum.

Saksóknari sýslunnar og sá dómari sem fer með mál unglinga sögðust hvorugur geta farið með málið þar sem þeir tengdust báðir fótboltaliðinu.

Lögreglan á staðnum liggur undir miklu ámæli fyrir að hafa ekki gætt hlutleysis við rannsóknina og setti því upp vefsíðu í dag, þar sem málið er rakið og hvernig unnið hefur verið með það fram að þessu.

Umfjöllun The New York Times um málið, sem birtist fyrir skömmu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert