Um fimmtíu látnir í Alsír

Talið er að um fimmtíu hafi látist, þar af flestir gíslar, í árásum hers Alsír á gasvinnslu þar sem íslamskir vígamenn höfðu tekið fjölmarga starfsmenn í gíslingu. Mjög misvísandi upplýsingar hafa borist um aðgerðir hersins en sjö útlendir gíslar lifðu árásina af. Þetta hefur ANI-fréttastofan eftir talsmanni mannræningjanna. Hann segir að 34 gíslar hafi látist og 15 mannræningjar. 

Talsmaðurinn segir að þrír Belgar, tveir Bandaríkjamenn, einn Japani og einn Breti hafi lifað af árásina. Það þýðir að allir Norðmennirnir sem voru í gíslingu eru látnir.

Fyrr í dag var greint frá því að fimmtán útlendingar og 30 Alsírbúar hafi sloppið úr haldi mannræningjanna en það hefur ekki fengist staðfest hjá yfirvöldum í Alsír.

Meðal látinna er foringi mannræningjanna, Abu al-Baraa, samkvæmt frétt ANI, en AFP-fréttastofan segir að ANI hafi mjög oft réttar upplýsingar í málum sem tengjast al-Qaeda og hópum sem tengjast hryðjuverkasamtökunum.

Gasvinnslan er rekin af BP, Statoil og Sonatrach. Í viðtali við Al-Jazeera fyrr í dag sagði al-Baraa að þeir krefðust þess að alsírski herinn fari af vettvangi svo hægt verði að hefja samningaviðræður. Hann staðfesti í viðtalinu þjóðerni gíslanna en þeir eru frá Austurríki, Noregi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Rúmeníu, Kólumbíu, Taílandi, Filippseyjum, Írlandi, Japan, Suður-Kóreu og Þýskalandi.

Annar þekktur öfgamaður, Mokhtar Belmokhtar, sem var áður einn af leiðtogum hreyfingar innan al-Qaeda, hefur einnig lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkunum. Hann hefur áður tengst mannránum í Alsír, bæði á heimamönnum og útlendingum.

Uppfært klukkan 15:40

Utanríkisráðuneyti Írlands hefur sent frá sér tilkynningu um að einn gíslanna, sem er frá Norður-Írlandi en með írskt vegabréf, sé sloppinn úr haldi mannræningjanna og hann sé heill á húfi.

Kemur fram í tilkynningunni að hann hafi haft samband við fjölskyldu sína og að ekkert ami að honum.

Hér er hægt að fylgjast með umfjöllun AFP

Aftenposten fjallar ítarlega um málið

AFP
Teymið í norsku utanríkisþjónustunni sem kemur að gíslamálinu
Teymið í norsku utanríkisþjónustunni sem kemur að gíslamálinu AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert