Norður-Kóreumenn ætla að sprengja kjarnorkusprengju

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu í morgun um að þau hygðust sprengja kjarnorkusprengju í tilraunaskyni. Að auki verður fleiri landdrægum eldflaugum skotið á loft í tilraunaskyni. Þetta er gert til höfuðs Bandaríkjamönnum, „erkifjendunum“ og eru viðbrögð við hertum refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna sem samþykktar voru í fyrradag vegna tilrauna þeirra með langdræga eldflaug í fyrra.

Þetta tilkynnti þjóðvarnarráðuneyti landsins í morgun. Ekki kemur fram í tilkynningunni hvenær sprengja á kjarnorkusprengjuna en þar segir að um sé að ræða hluta af viðamiklum aðgerðum sem marki „nýja tíma í samskiptum landsins við Bandaríkin“. „Að jafna reikningana við Bandaríkin verður einungis gert með valdi, ekki með orðum,“ segir í tilkynningunni.

Þriðja sprengjan á sjö árum

Þetta verður í þriðja skiptið á sjö árum sem Norður-Kóreumenn sprengja kjarnorkusprengju, þá fyrstu sprengdu þeir árið 2006 og aðra árið 2009. Báðar sprengingarnar voru fordæmdar af alþjóðasamfélaginu.

Viðbrögðin núna hafa ekki látið á sér standa. Grannríkið Kína hvetur til stillingar og stjórnvöld í Suður-Kóreu hvetja þá til að gefa gaum að viðvörunum alþjóðasamfélagsins.

Vangaveltur eru uppi um að næsta kjarnorkusprengja Norður-Kóreumanna verði úraníumsprengja, en fyrri sprengjurnar tvær innihéldu plútoníum. Við framleiðslu úraníumsprengju þarf að auðga úran, til þess þarf háþróaða tækni sem ekki er vitað til að Norður-Kóreumenn hafi yfir að ráða.

Norður-Kóreumenn skutu langdrægri eldflaug í loft fyrir rúmum mánuði. Vegna …
Norður-Kóreumenn skutu langdrægri eldflaug í loft fyrir rúmum mánuði. Vegna þess ákváðu SÞ að beita refsiaðgerðum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert