Meirihluti vill úr Evrópusambandinu

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Fleiri Bretar myndu greiða atkvæði með úrsögn úr Evrópusambandinu en með því að vera áfram innan sambandsins ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var fyrir breska dagblaðið Times.

Um er að ræða fyrstu könnun sem gerð er eftir að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, flutti ræðu fyrr í vikunni og boðaði þjóðaratkvæði um veru landsins í Evrópusambandinu árið 2017 þar sem valið stæði á milli úrsagnar úr sambandinu eða áframhaldandi veru innan þess á breyttum forsendum.

Samkvæmt könnuninni myndu 53% greiða atkvæði með úrsögn úr Evrópusambandinu, ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti, en 47% með áframhaldandi veru í sambandinu.

Fram kemur í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar að niðurstöðurnar séu líklegar til þess að valda Cameron vonbrigðum þar sem ræða hans virðist ekki hafa höfðað til fyrrum stuðningsmanna Íhaldsflokks hans sem nú styðja Breska sjálfstæðisflokkinn (UK Independence Party) en hann vill að Bretar yfirgefi Evrópusambandið.

Þannig bendir könnunin til þess að einungis 8% þeirra sem nú styðja Breska sjálfstæðisflokkinn gætu hugsað sé að kjósa Íhaldsflokkinn í kjölfar ræðunnar. Könnunin bendir ennfremur til þess að fjölmargir breskir kjósendur séu þegar búnir að gera endanlega upp hug sinn varðandi afstöðuna til Evrópusambandsins segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert