Nauðgað og misþyrmt af hópi karla

Hin sextán ára gamla Seenu var á leið til ömmu sinnar í rólegu hverfi í norðurhluta Indlands þegar hópur karla drógu hana inn í bíl, fóru með hana á afvikinn stað og nauðguðu hver á eftir öðrum.

Mennirnir tóku ódæðið upp snjallsíma, samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar sem tók nýverið viðtal við stúlkuna. Hún komst til meðvitundar á ný eftir nauðgunina klukkustundum síðar, nakin, blóðug og áttavilt.

Faðirinn framdi sjálfsvíg

Þegar faðir hennar, garðyrkjumaður sem tilheyrir Dalit samfélaginu sem er neðsta þjóðfélagsstéttin í Indlandi, komst að því hvað hafði komið fyrir dóttur sína framdi hann sjálfsvíg. 

Næstu daga eftir árásina fór Seena (sem er ekki rétt nafn stúlkunnar) ásamt móður sinni margoft á lögreglustöðina og reyndu að leggja fram kæru þrátt fyrir að þeim væri hótað af árásarmönnunum en Seena þekkir einhverja þeirra. Þeir eru allir úr efri lögum þjóðfélagsins.

Það var ekki fyrr en íbúar bæjarins sem hún býr í efndu til mótmæla og beittu lögreglu miklum þrýstingi, að sá fyrsti ódæðismaðurinn var handtekinn. Það var tveimur vikum eftir hópnauðgunina. Síðan þá hafa sjö til viðbótar verið handteknir fyrir nauðgunina.

Nú býr hún hjá ömmu sinni og gæta hennar sex lögreglumenn en réttarhöld í málinu hefjast í næsta mánuði. Hún segir að fórnarlömb nauðgana standa frammi fyrir því að lögreglan beri ekki virðingu fyrir þeim. „Það gerir mig svo reiða. Hvers vegna hlustar lögreglan ekki? Hvers vegna sinnir lögreglan ekki starfi sínu? Hvers vegna þurfa þeir að niðurlægja stúlkuna eða koma fram við hana eins og það sé hennar sök að henni hafi verið nauðgað?,“ segir hún í viðtali við AFP fréttastofuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert