Með lægri laun en embættismenn ESB

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, er með lægri laun en einir 4365 embættismenn Evrópusambandsins en mánaðarlaun hennar eru 16.275 evrur samkvæmt frétt þýska dagblaðsins Die Welt eða rúmlega 2,8 milljónir íslenskra króna.

Fram kemur í fréttinni að kjör embættismannanna séu ekki aðeins betri en Merkels í evrum talið heldur einnig vegna þess að þeir njóti víðtækra skattaívilnana. Þannig borgi þeir til að mynda ekki tekjuskatt til heimalands síns eða ríkisins sem þeir starfa í heldur beint til Evrópusambandsins en sá skattur er mjög hóflegur.

Tekið er dæmi um háttsettan stjórnanda hjá Evrópusambandinu með um tólf undirmenn, sem er í hjónabandi og á eitt barn. Slíkur einstaklingur hafi í laun á mánuði 16.358 evrur fyrir skattaívilnanir. Kjör 79 hærra settra embættismanna hjá sambandinu eru enn betri en þeir eru með 21.310 evrur í mánaðarlaun, eða tæplega 3,7 milljónir króna, miðað við að slíkur einstaklingur sé barnlaus og hafi verið fjögur ár í starfi.

Þá segir í fréttinni að ef allar skattaívilnanir embættismanna Evrópusambandsins eru teknar með í myndina séu tugir þúsunda embættismanna sambandsins með hærri laun en leiðtogar ríkja þess sem og ráðherrar og ráðuneytisstjórar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert