Hátt gengi evrunnar ógnar efnahag ESB

François Hollande, forseti Frakklands.
François Hollande, forseti Frakklands. AFP

Frakklandsforseti segir of hátt gengi evrunnar vera til þess fallið að skaða efnahagslega hagsmuni Evrópusambandsins og vill að gripið verði til alþjóðlegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að höfð séu óeðlileg áhrif á þróun gengis gjaldmiðla. Þetta kom fram í ræðu sem François Hollande flutti í Evrópuþinginu í Strasbourg samkvæmt Financial Times í dag.

„Evran á ekki að sveiflast eftir duttlungum markaðarins,“ sagði forsetinn ennfremur í ræðu sinni. „Myntbandalag verður að búa yfir gengisstefnu. Sé svo ekki stýrist það af gengi sem endurspeglar ekki raunverulega stöðu efnahagslífsins.“

Hollande lagði þó áherslu á að hann væri ekki að kalla eftir því að Evrópski seðlabankinn kæmi sér upp gengisviðmiði en krafðist þess að komið yrði á brýnum umbótum á fyrirkomulagi gjaldmiðlamála í heiminum. Að öðrum kosti væru allar tilraunir evruríkja til þess að auka samkeppnishæfni sína að engu gerðar af evrunni.

Hollande sagði á blaðamannafundi eftir ræðuna að evran ógnaði meðal annars tilraunum Frakka við að auka samkeppnishæfni sína. Sagði hann að forystumenn evrusvæðisins yrðu að koma sér saman um gengi evrunnar til skemmri tíma litið. „Við verðum að grípa til aðgerða á alþjóðlegum vettvangi til þess að vernda hagsmuni okkar,“ sagði hann.

Fram kemur í fréttinni að franskir ráðherra hafi undanfarið kvartað mjög yfir háu gengi evrunnar og sagt að einstök evruríki væru berskjölduð gagnvart úthugsuðum tilraunum ríkja eins og Japans til þess að hafa óeðlileg áhrif á gengi evrunnar. „Evrópusambandið skilur evruna eftir varnarlausa gagnvart órökréttum sveiflum í eina áttina eða aðra,“ sagði Hollande ennfremur.

Frétt Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert