Hóta að fara í mál vegna hrossakjöts

Hrossakjöt er að finna í 320 gr. pakkningum af lasagne …
Hrossakjöt er að finna í 320 gr. pakkningum af lasagne frá Findus sem hafa verið í sölu í Bretlandi. AFP

Lögmenn sænska matvælafyrirtækisins Findus hafa lagt fram formlega kvörtun í Frakklandi eftir að það kom í ljós að það var engin tilviljun að hrossakjöt sé að finna á lasagne frá fyrirtækinu, sem á að innihalda nautakjöt.

Franskt kjötvinnslufyrirtæki hefur hótað að fara í skaðabótamál við kjötbirgi í Rúmeníu vegna hneykslisins. Hrossakjötið hefur verið rakið eftir krókaleiðum til Rúmeníu en slóðin liggur m.a. í gegnum Kýpur og Hollands.

Bresk stjórnvöld greindu frá því í vikunni að í lasagne frá Findus og tvær máltíðir sem verslunarkeðjan Aldi selji innihaldi 100% hrossakjöt. Vörur sem innihalda hrossakjöt hafa einnig fundist í Frakklandi og í Svíþjóð.

Það að leggja sér hrossakjöt til munns er nánast algjört bannorð í Bretlandi. Owen Paterson, umhverfisráðherra Bretlands, fundaði í dag með heildsölum og embættismönnum vegna málsins, en mikil ólga ríkir í Bretlandi eftir að málið komst upp.

„Þetta er samsæri gegn almenningi. Það eru svik að selja vöru sem nautakjöt og svo er hún uppfull af hrossakjöti,“ sagði ráðherrann.

Bresk yfirvöld hafa greint frá því að þau séu að láta rannsaka hvort lyf sem dýralæknar nota sé að finna í kjörtinu, en það getur verið skaðlegt heilsu fólks. Þá hafa bresk yfirvöld ekki útilokað að hrossakjöt sé að finna í skólamáltíðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert