Riffli beint að höfði barns á Instagram

Myndin umdeilda sem ísraelskur hermaður birti á Instagram síðu sinni.
Myndin umdeilda sem ísraelskur hermaður birti á Instagram síðu sinni.

Ísraelsher hefur sett af stað rannsókn á birtingu myndar á Instagram þar sem riffli er beint að höfði palestínsks barn. Myndin er sögð hafa verið sett inn af ísraelskum hermanni.

Myndinni var deilt víða á netinu en hefur verið fjarlægð þaðan sem hún var upphaflega sett inn. Á henni sést aftan á hnakka barns sem situr, en myndin er séð frá sjónarhóli leyniskyttu sem hefur höfuð barnsins í sigtinu. Rifflinum virðist beint út um glugga í átt að palestínskri byggð.

Ísraelskir fjölmiðlar segja að tvítug skytta í hernum, Mor Ostrovski, hafi sett myndina inn á Instagramsíðu sína í síðustu viku en hún breiddist eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og hefur vakið mikla reiði.

Ísraelsher sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir að myndin sé ekki í samræmi við gildi eða siðareglur hersins. „Yfirmönnum hermannsins hefur verið tilkynnt athæfið. Málið verður rannsakað og við því brugðist.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ísraelskir hermenn gerast sekir um vafasama myndbirtingu. Hópurinn Breaking the Silence, sem skrásetur framferði Ísraelshers gagnvart Palestínumönnum, rifjaði á facebooksíðu sinni upp svipaða mynd sem birtist árið 2003.

„Tíu ár eru liðin. Búnaðurinn og aðferðirnar hafa breyst, en sú tilfinning er enn ríkjandi að verið sé að beita óþarflega miklu afli og vítaverðu gáleysi gagnvart mannlegu lífi og reisn,“ segja samtökin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert