Fátækir borði hrossakjötið

Hrossakjöt hefur m.a. fundist í Findus lasagne með meintu nautahakki.
Hrossakjöt hefur m.a. fundist í Findus lasagne með meintu nautahakki. AFP

Þróunarmálaráðherra Þýskalands, Dirk Niebel, lagði það til í dag að kjöti, sem blandað hefur verið hrossakjöti og markaðssett á fölskum forsendum, verði útdeilt til fátækra.

„Við getum ekki bara hent góðum mat í ruslið,“ sagði Niebel í dag þegar hann lýsti yfir stuðningi við tillögu stjórnarmeðlims að gefa fátækum kjötið sem enginn annar vill. Hann bendir á að 800 milljónir manna í heiminum svelti. „Jafnvel hér í Þýskalandi er því miður fólk sem býr við kröpp kjör,“ sagði ráðherrann.

Stjórnarandstaðan hefur hafnað tillögunni og sagt hana fáránlega og móðgandi við fátækt fólk, en BBC hefur eftir presti sem er hátt settur innan evangelísku kirkjunnar að rétt væri að gefa henni gaum. „Okkur kirkjunnar mönnum finnst sú tilhneiging samfélagsins að leifa mat áhyggjuefni. Hvort og hvernig dreifa eigi umræddum matvörum er nokkuð sem við ættum að skoða,“ hefur BBC eftir prestinum Bernhard Felmberg.

Leifar af erfðaefni hrossa hafa fundist í 6 tonnum af hökkuðu nautakjöti og 2.400 pakkningum af lasagne bolognese sem lagt var hald á frá ítalska fyrirtækinu Prima í Bologna. Á Spáni hefur fyrirtækið Nestle sömuleiðis tilkynnt að tvær tegundir af pastaréttum verði innkallaðar úr verslunum á Spáni og Ítalíu eftir að hrossakjöt fannst í þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert