Átök vegna Harlem Shake í Túnis

Grímuklæddur stúdent við Bourguiba málaskólann í Túnis dansar Harlem shake …
Grímuklæddur stúdent við Bourguiba málaskólann í Túnis dansar Harlem shake og ögrar salafistum. AFP

Til átaka kom í Túnis í dag milli salafista, heittrúaðra múslíma, og stúdenta í tveimur skólum þegar þeir fyrrnefndu reyndu að koma í veg fyrir gerð myndbands með „Harlem Shake“ dansinum svo nefnda sem er nýjasta æðið í netheimum. 

Um tugur salafista réðst til inngöngu í Bourguiba málaskólann í höfuðborginni Túnis í dag til að koma í veg fyrir að Harlem Shake dansporin væru stigin. „Bræður okkar í Palestínu eru drepnir af Ísraelsmönnum, og þið eruð að dansa,“ æpti einn salafistanna og bætti því við að hann vildi kenna stúdentum hvers konar hegðun væri „haram“ (leyfð) og hver „halal“ (bönnuð).

Annar í hópi salafistanna bar á sér bensínsprengju sem hann notaði þó ekki. Stúdentarnir hröktu þá út úr skólanum og tóku upp dansinn, að sögn blaðamanns Afp í Túnis 

Í öðrum skóla utan við borgina stóð einnig til að gera samskonar myndband í dag en þar  kallaði skólastjórinn í lögreglu til að grípa í taumana. Stúdentar brugðust við með grjótkasti en lögregla greip þá til táragass til að yfirbuga þá.

Harlem shake danssporin sérkennilegu hafa farið eins og eldur í sinu um heiminn og margir tekið upp sína útgáfu af dansinum og sett á netið. Salafistar í Túnis hafa hins vegar fordæmt dansinn sem óhæfi á samfélagsmiðlum.

Á mánudag sagði menntamálaráðherra Túnis, Abdellatif Abid, að rannsókn væri hafin á Harlem shake dansi stúdenta um helgi í úthverfi höfuðborgarinnar. Sagði hann hugsanlegt að einhverjum stúdentum verði vísað úr skóla vegna athæfisins.

Í kjölfarið unnu hakkarar skemmdarverk á heimasíðu ráðuneytisins og boð send út á samfélagsmiðlum um að sameinast í hópdansi fyrir framan ráðuneytið á föstudag. Stúdentarnir í skólunum tveimur í dag virðast hafa verið að bregðast við þessu. 

Salafistar í Túnis hafa undanfarið unnið skemmdarverk m.a. á myndlistasýningum, menningarhátíðum og helgiskrínum.

Til átaka kom milli stúdenta og salafista í Túnis þegar …
Til átaka kom milli stúdenta og salafista í Túnis þegar þeir fyrrnefndu ætluðu að dansa Harlem shake. AFP
Til átaka kom milli stúdenta og salafista í Túnis þegar …
Til átaka kom milli stúdenta og salafista í Túnis þegar þeir fyrrnefndu ætluðu að dansa Harlem shake. AFP
Til átaka kom milli stúdenta og salafista í Túnis þegar …
Til átaka kom milli stúdenta og salafista í Túnis þegar þeir fyrrnefndu ætluðu að dansa Harlem shake. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert