Týndur hermaður finnst eftir 33 ár

Sovéskur hermaður sem hefur verið saknað síðan skömmu eftir innrás Sovétmanna í Afganistan fyrir 33 árum fannst nýlega á lífi. Hann býr innan um heimamenn í Herat héraði í Afganistan og hefur tekið sér afganskt nafn.

BBC hefur eftir rússnesku fréttastofunni RIA að hermaðurinn fyrrverandi búi nú meðal hirðingja, kalli sig Sheikh Abdullah og stundi jurtalækningar. Hann fæddist í Úsbekistan og var af foreldrum sínum nefndur Bakhretdin Khamikov. Árið 1980 særðist hann í bardaga, örfáum mánuðum eftir að Rauði herinn réðst inn í Afganistan.

Honum var bjargað af heimamönnum sem hjúkruðu honum en ekkert hefur spurst til hans á heimaslóðirnar í rúma þrjá áratugi.

Flestir sneru heim - en ekki allir

264 fyrrverandi sovéskra hermanna er enn saknað í Afganistan, um helmingur þeirra Rússar. Á fyrsta áratuginum eftir að Sovétmenn drógu sig út úr landinu, árið 1989, fundust 29 hermenn og ákváðu 22 þeirra að snúa aftur til síns heima en 7 vildu dvelja áfram í Afganistan. 

Yfirmaður nefndar um uppgjafarhermenn í Sovéther, Ruslan Aushev, segir að áralöng rannsókn hafi leitt til þess að Sheikh Abdullah fannst. Nefndin er staðráðin í því að komast að örlögum allra hermanna sem enn er saknað.

Sheikh Abdullah var kvæntur í Úsbekistan en eiginkona hans er dáin og þau áttu engin börn. Þegar hann fannst í Afganistan gat hann greint á því hvar hann bjó áður og nefnt nánustu ættingja sína á nafn. Hann tinaði og bar merki um að hafa særst. Hann skilur enn rússnesku en talar hana afar illa.

Um 15.000 hermenn Rauða hersins og rúm milljón Afgana féllu í stríðsátökum 9. áratugarins milli stjórnvalda í Kabúl, sem nutu stuðnings Sovétríkjanna, og mujahideen uppreisnarmanna sem Vesturríkin útveguðu vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert