Kosið á Möltu

Lawrence Gonzi, forsætisráðherra Möltu og leiðtogi Þjóðernisflokksins, kýs í morgun.
Lawrence Gonzi, forsætisráðherra Möltu og leiðtogi Þjóðernisflokksins, kýs í morgun. AFP

Í dag er kosið í þingkosningum á Möltu. Verkamannaflokkurinn þykir sigurstranglegur í fyrsta skipti í meira en 15 ár en leiðtogi flokksins, Joseph Muscat, hefur lofað að sameina þessa litlu eyju í Miðjarðarhafinu og hleypa lífi í efnahaginn.

Samkvæmt skoðanakönnunum er Muscat 12 stigum fyrir ofan keppninaut sinn Lawrence Gonzi sem er forsætisráðherra og leiðtogi Þjóðernisflokksins.

Kjörstaðir loka klukkan níu í kvöld og mun talning hefjast á morgun, sunnudag. Rúmlega þrjúhundruð þúsund kjósendur eru á kjörskrá.

Þessi litla eyja sker sig úr meðal landa Evrópusambandsins en á Möltu er lágt hlutfall atvinnuleysis, þokkalegur hagvöxtur og fjármál ríkisins þykja traust. Atvinnuleysishlutfallið er 6% samkvæmt nýjustu mælingum og á síðasta ári mældist hagvöxtur landsins 1,5%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert