Vandi Kýpur ræddur áfram í kvöld

Ljóst er að vandi Kýpur verður ræddur langt fram eftir kvöldi í Brussel en beðið er eftir því að fundi helstu stjórnenda Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ljúki. Ef ekki næst samkomulag í nótt er hætta á að Kýpur fari í þrot.

Fundi fjármálaráðherra evru-ríkjanna vegna vanda Kýpur hefur verið frestað til klukkan 19 að íslenskum tíma þar sem Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sitja á fundi ásamt þeim Jeroen Dijsselbloem og Olli Rehn og fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni.

Forseti Kýpur, Nicos Anastasiades, fundar hins vegar með helstu lánardrottnum um mögulega björgun landsins. Hann segir á Twitter að erfiðum viðræðum verði haldið áfram og það gert sem kemur Kýpur best.

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, segist vonast til þess að hægt verði að ganga frá samkomulagi í kvöld en nefndi á sama tíma að nauðsynlegt væri að Kýpurbúar tækju á málunum af festu og skynsemi.

Í nótt rennur út frestur sem Seðlabanki Evrópu gaf stjórnvöldum á Kýpur til að reiða fram 5,8 milljarða evra tryggingu fyrir 10 milljarða neyðarláni frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Bankar á Kýpur hafa nú verið lokaðir í viku og hafa sparifjáreigendur einungis getað nýtt sér hraðbanka til að nálgast peningana sína. Í kvöld var greint frá því að tveir stærstu bankarnir hefðu lækkað heimildina til úttekta í 100 evrur á sólarhring.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert