Sáttur við samkomulagið

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, kveðst vera sáttur við það samkomulag sem náðst hefur á milli kýpverskra stjórnvalda, fjármálaráðherra evrusvæðisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkomulag náðist í nótt um 10 milljarða neyðarlán til handa Kýpur.

Meðal þess sem stjórnvöld á Kýpur verða að gera, er að draga mjög úr bankastarfsemi landsins. T.d. á að loka næst stærsta banka landsins, Laika Bank, og færa innistæður úr honum yfir í Kýpurbanka, sem er stærsti bankinn.

Anastasiades fundaði stíft með fjármálaráðherrunum og AGS í um 12 tíma áður en samkomulag náðist. Ljóst er að með því muni stórir fjárfestar taka á sig stóran skell.

Undanfarna 10 daga hefur bankar í landinu verið lokaðir. Ekki liggur fyrir hvenær þeir muni opna á nýjan leik, eða hvort dregið verði úr gjaldeyrishöftum. Búist var við að þeir myndu opna á morgun, að því er AFP-fréttastofan segir.

Samkvæmt samkomulaginu verður Laiki bankanum lokað, en talið er að með því verði hægt að spara 4,2 milljarða evra. Ljóst er að margir muni taka stóran skell vegna þess.

Kýpurbanki, sem er stærsti banki landsins, fær að lifa. Skv. samkomlaginu eru innistæður yfir 100.000 evrum ótryggðar. Aðrar innistæður eru tryggðar.

Þetta er mikið högg fyrir stóra fjárfesta, en stærstur hluti innistæðnanna er í eigu rússneskra auðmanna.

Í næsta mánuði muni kýpverska þingið koma saman til að greiða atkvæði um samkomulagið. Þegar það fær grænt ljós þá verður hægt að afgreiða lánið. 

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, ræðir við blaðamenn í nótt.
Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, ræðir við blaðamenn í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert