Norður-Kórea hótar að ráðast á Bandaríkin

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, virðir fyrir sér líkön af hergögnum.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, virðir fyrir sér líkön af hergögnum. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa búið sig undir hernaðarátök og gefið stórskotaliði og eldflaugasveitum fyrirskipanir um að undirbúa árásir á meginland Bandaríkjanna, Havaí og Gvam. Þetta segir ríkisfréttastofa landsins.

Í yfirlýsingu frá yfirstjórn kóreska alþýðuhersins er öllum stórskotaliðshermönnum, þar á meðal eldflaugasveitum, gert að búa sig undir átök.

Hermenn skulu vera búnir undir að ráðast á allar bandarískar herstöðvar í Kyrrahafi við Asíu, þar á meðal meginland Bandaríkjanna, Havaí og Gvam. Einnig skulu þeir búa sig undir að ráðast á Suður-Kóreu.

Þrátt fyrir að norðurkóreskum yfirvöldum hafi tekist að skjóta langdrægri eldflaug á loft í desember, þá telja flestir sérfræðingar að Norður-Kóreumenn eigi enn langt í land með að ná að smíða eldflaug sem hægt er að skjóta yfir til Bandaríkjanna. 

Skipun yfirstjórnar kóreska alþýðuhersins kemur aðeins nokkrum dögum eftir að Bandaríkin og Suður-Kórea gerðu með sér hernaðarsamkomulag. Í því felst m.a. að hersveitir þjóðanna bregðist við og taki höndum saman hafi N-Kórea í hótunum við þau. Þá skiptir engum toga hvort um sé að ræða minniháttar eða meiriháttar hótanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert