Prentuðu evrur í gríð og erg

Hluti fölsuðu 50 evruseðlanna sem lögreglan lagði hald á í …
Hluti fölsuðu 50 evruseðlanna sem lögreglan lagði hald á í gær Af vef Europol

Lögreglan í Króatíu, með aðstoð Europol, stöðvaði peningaverksmiðju í Króatíu en þar höfðu falsaðar evrur verið prentaðar í gríð og erg. Alls voru átján handteknir en einn þeirra hótaði lögreglu með handsprengju þegar lögreglan réðst til atlögu.

Glæpahópurinn sem stóð að peningafölsuninni hóf starfsemina í október í fyrra en sérsvið þeirra var prentun á 50 evru seðlum. Alls tóku 150 lögreglumenn þátt í aðgerðunum í fimm borgum Króatíu: Bjelovar, Cakovec, Koprivnica, Varazdin og Zagreb. Sjálf prentsmiðjan var til húsa í Bjelovar.

Glæpamaðurinn sem ógnaði lögreglunni var handtekinn í Zagreb. Lögreglan yfirbugaði manninn áður en hann náði að henda sprengjunni og enginn særðist.

Talið er að allir þeir sem tilheyrðu glæpahópnum hafi verið handteknir í gær. Hald var lagt á prentbúnað, 3.600 eintök af 50 evruseðlum eða alls 180 þúsund evrur. Auk 63 pakkninga af 50 punda seðlum sem átti eftir að snyrta til, samkvæmt frétt á vef Europol.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert