Stúlkan í pokanum kölluð Gjöf guðs

Ungbarn sem fannst eitt og yfirgefið á götu í hinni stríðshrjáðu borg Aleppo í Sýrlandi, er kallað Gjöf guðs af fjölskyldunni sem ættleiddi stúlkubarnið.

Aleppo er mjög illa farin eftir átök sem hófust í borginni í júlí á síðasta ári. Atvinnuleysi er mikið og verð á nauðsynjavörum hefur hækkað mikið - svo mikið að venjulegt fólk á erfitt með að ná endum saman.

Þetta hefur orðið til þess að foreldrar standa frammi fyrir ömurlegum aðstæðum.

Læknar segja að sífellt fleiri yfirgefi börn sín. Þeir segja að foreldrar geri það til að vernda önnur börn sín. Stundum sé einfaldlega ekki mögulegt að sjá fyrir allri fjölskyldunni. Aðrir hafa sent börn sín til fjarskyldra ættingja.

Hibat Allah, eins og hún heitir á arabísku, var heppin að lifa af. Hún fannst á götu í hverfi sem uppreisnarmenn ráða yfir.

„Hún var skilin eftir í poka við inngang byggingar. Það var um nótt og hún grét. Enn var ekki búið að klippa af henni naflastrenginn,“ segir móðirin sem ættleiddi hana, Umm Moawiya. Sú er hárgreiðslukona sem hefur starfað sem sjálfboðaliði við hjúkrun í stríðinu.

„Hún var heppin. Á tólf tímum fór hún á milli 20 lækna á fimm sjúkrahúsum. Hún var blá í framan og þurfti súrefni en sjúkrahúsin í hverfinu höfðu ekki rafmagn til að geta gefið henni súrefni. En að lokum fann ég sjúkrahús sem gat sinnt henni í tvo daga.“

Umm Moawiya fékk það verkefni að sinna stúlkunni en hún var aðeins um 8 merkur og þurfti mikla aðhlynningu.

Umm Moawiya átti fjögur börn fyrir og viðurkennir að eiginmaðurinn hafi ekki heillast um leið af hugmyndinni um að taka að sér fimmta barnið.

„En konan mín og börnin kröfðust þess,“ segir Abu Moawiya. „Við skírðum hana Hibat Allah því hún er raunveruleg gjöf frá guði.“

Barnaheill, Save the Children, vakti athygli á því fyrr á árinu að sífellt fleiri börn væru skilin eftir.

„Oft verða börn viðskila við foreldra sína er fjölskyldurnar eru á flótta. Í sumum tilvikum standa foreldrarnir frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að senda börnin til ættingja á öruggari svæðum,“ sagði m.a. í skýrslunni sem kom út í mars.

Samtökin segja að ef fari fram sem horfi muni fósturfjölskyldur ekki ráða við álagið og þar með myndi hættan á því að börn verði skilin eftir á götum úti aukast.

Þá segir kvensjúkdómalæknir að hún finni fyrir því að sífellt fleiri konur vilji fara í fóstureyðingu þar sem þær sjái ekki fram á að geta sinnt barni sínu í miðju stríði.

„Þær telja sig ekki geta framfleytt þeim og velja því fóstureyðingu,“ segir læknirinn.

 Þó að Abu Moawiya hafi verið hikandi í fyrstu ákvað hann að ættleiða litlu stúlkuna sem fannst í pokanum.

„Ef foreldrar hennar vilja fá hana aftur þurfa þeir að fara með málið fyrir dómstóla. Ef guð lofar, fáum við að halda henni.“

Hann segir að margir hafi viljað taka við stúlkunni, m.a. hafi einn maður boðist til þess að fara með hana til Þýskalands, fjarri stríðsátökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert