Lét konuna hafa mök við vin sinn

Börnin sem létust hétu Jade Philpott, 10 ára og bræður …
Börnin sem létust hétu Jade Philpott, 10 ára og bræður hennar John, 9 ára, Jack, 8 ára, Jessie 6 ára, Jayden, 5 ára og Duwayne, 13 ára, en hann lést þrem dögum eftir brunann.

Það hefur vakið furðu margra hvernig Mick Philpott og Mairead Philpott gátu hugsað sér að leggja eld að húsi sínu í Derby á Englandi, sem leiddi til þess að sex börn þeirra létust. Mick Philpott er undarlegur maður og hann kom fram við konurnar í lífi sínu eins og þær væru þrælar.

Mick Philpott og Mairead bjuggu í húsi ásamt fimm börnum sínum á aldrinum, 5-10 ára. Philpott bjó einnig með annarri konu í húsinu, Lisu Willis, en hann átti með henni fjögur börn, en auk þess bjó í húsinu eitt barn sem Willis átti með öðrum manni. Mairead átti einnig eitt barn sem bjó hjá móður sinni. Samtals bjuggu því ellefu börn í húsinu með Philpott og konum tveimur.

Átti í ástarsambandi við brúðarmeyna

Lisa Willis var brúðarmey í brúðkaupi Mairead og Mick Philpott. Mairead var þá þegar kunnugt um að Lisa átt í ástarsambandi við verðandi mann hennar. Eftir brúðkaupið flutti Lisa inn til þeirra. Eftir að fjölskyldan stækkaði bjó Lisa í hjólhýsi úti í garði.

Sambúðin gekk vel í nokkur ár. Mick Philpott var atvinnulaus en fjölskyldan lifði á atvinnuleysisbótum og barnabótum, en auk þess bjuggu þau í félagslegu húsnæði í eigu sveitarfélagsins.

Fjölmiðlar í Bretlandi fengu áhuga á fjölskyldunni, bæði vegna þess að Philpott bjó með tveimur konum og eins vegna þess að fjölskyldan virtist komast ágætlega af án þess að foreldrar barnanna stunduðu neina vinnu. Þessi áhugi minnkaði ekki þegar Mick Philpott lýsti í blaðaviðtali yfir óánægju með að sveitarfélagið neitaði að útvega honum stærra húsnæði fyrir stækkandi fjölskyldu.

Ann Widdecombe, fyrrverandi þingmaður breska Íhaldsflokksins, gerði í framhaldi sjónvarpsþátt um Philpott-fjölskylduna. Hún dvaldi með fjölskyldunni í eina viku árið 2007 og fjallaði um lífsbaráttu þeirra og lífsviðhorf. Hún segir að Mick Philpott hafi verið afar stjórnsamur maður og það sem hún varð vitni að hafi ekki allt verið vinsamlegt. Hún tók fram að vel hefði verið hugsað um börnin og ekkert benti til að þau hefðu verið hrædd við föður sinn.

Philpott-fjölskyldan kom einnig fram í Jeremy Kyle Show, þar sem fjallað er um „skrítnar fjölskyldur“ og fjölskylduerjur af ýmsu tagi. Mick Philpott missti stjórn á skapi sínu í þættinum og svaraði stundum fyrir Mairead og Lisu Willis þegar spurningum var beint að þeim.

Lisa Willis missir þolinmæðina og flytur út

Í febrúar á síðasta ári missti Lisa Willis þolinmæðina og flutti að heiman með börn sín. Philpott var mjög ósáttur við þetta og vildi fá börnin aftur. Hann sagði vinum sínum frá því að fyrrverandi sambýliskona sín hefði hótað sér. Í maí tilkynnti hann til lögreglu að Willis hefði hótað að kveikja í húsinu.

Aðfaranótt 11. maí kom upp eldur í húsi fjölskyldunnar. Fimm yngstu börnin fórust í brunanum og sjötta barnið lést á sjúkrahúsi þremur dögum síðar.

Philpott sagði lögreglunni að hann grunaði að Lisa Willis hefði látið verða af hótunum sínum og að hún hefði kveikt í húsinu. Philpott-hjónin komu fram á blaðamannafundi fimm dögum eftir brunann, þar sem þau lýstu harmi sínum og skoruðu á almenning að aðstoða lögreglu við að upplýsa um hver hefði kveikt í húsinu.

Lögregluna var hins vegar strax á þeim tíma farið að gruna að Philpott-hjónin hefðu sjálf kveikt í húsinu í þeim tilgangi að koma sök á Willis og fá þannig forræði yfir börnunum sem hún átti með Philpott. Lögreglan lét hlera síma Philpott og herbergið þar sem þau dvöldu á sjúkrahúsinu.

Vinurinn fékk að stunda kynlíf með Mairead

Lögregluna grunaði einnig að Paul Mosley, náinn vinur Mick Philpott, tengdist málinu. Eftir að bensín fannst í fötum Mosley var hann tekinn til yfirheyrslu. Ýmislegt sem Philpott sagði eftir brunann styrkti grun lögreglu. Sérstaka athygli vakti að Mairead sá ekki ástæðu til að sitja við dánarbeð Duwayne, 13 ára sonar síns, sem í þrjá daga barðist fyrir lífi sínu eftir brunann. Systir Mairead sagði í samtali við BBC, að hún og móðir hennar hefðu setið hjá Duwayne í marga klukkutíma. Á meðan hefðu Mairead og Mick verið í öðru herbergi að ræða á hvaða veitingahús þau ættu að fara og jafnframt hefðu þau verið að hneykslast á því að sjúkrahúsið byði ekki upp á almennilegan mat.

Eitt af því sem lögreglan heyrði Mick Philpott segja við kona sína, þegar herbergi þeirra var hlerað, var að hún „ætti að halda sig við sögu sína“. Þegar lögreglan bað Philpott að skýra þessi ummæli sagði hann að hann hefði átt við að þau hefðu átt í kynferðissambandi við Paul Mosley. Hann hefði ekki verið að tala um það sem gerðist nóttina sem kviknaði í húsinu.

Lögreglan á hljóðupptöku af því þegar Mairead veitir Paul Mosley munnmök í herbergi á sjúkrahúsinu þar sem þau dvöldu. Í dómssal var spiluð upptaka af því þegar Philpott þakkar konu sinni fyrir að hafa mök við Mosley. Hann bætir síðan við að hann geri sér grein fyrir að henni hafi ekki langað til þess að gera þetta.

Leit á konur eins og hvert annað lausafé

Mick Philpott, Mairead Philpott og Paul Mosley voru í vikunni fundin sek um að hafa kveikt í húsinu sem leiddi til þess að sex börn létust. Mick Philpott fékk lífstíðardóm en Mairead Philpott og Paul Mosley voru dæmd í 17 ára fangelsi.

Þegar dómur var felldur yfir Mick Philpott sagði dómarinn að hann hefði komið fram við konur eins og þær væru hans eign eða hvert annað lausafé. Hann hefði gargað fyrirskipanir á konu sína og Willis. Dómarinn nefndi sem dæmi um hversu ósjálfstæðar konurnar voru að þær hefðu ekki einu sinni haft lykil að húsinu.

Þetta er í samræmi við það sem systir Mairead Philpott sagði í samtali við BBC. Konurnar hefðu séð um öll húsverkin og að ala upp börnin.

Philpott stakk kærustu sína árið 1978

Þegar Jeremy Kyle spurði Mick Philpott árið 2006 hvers vegna hann væri ekki í vinnu svaraði Philpott að hann fengi ekki vinnu vegna þess að hann væri á sakaskrá. Ann Widdecombe útvegaði honum hins vegar vinnu árið 2007 þegar hún gerði sjónvarpsþátt um hann. Fljótlega eftir að gerð þáttarins lauk hætti Philpott hins vegar að mæta í vinnuna.

Ástæðan fyrir því að Philpott var á sakaskrá sýnir hins vegar enn og aftur viðhorf hans til kvenna og hvernig hann bregst við ef þær fara ekki að vilja hans.

Árið 1978, þegar Philpott var 21 árs, sagði þáverandi kærasta hans honum upp. Hún var 17 ára gömul. Philpott brást við með því að ráðast inn til hennar með hníf í hendi og stinga hana þar sem hún lá í rúmi sínu. Hann stakk móður hennar þegar hún reyndi að koma dóttur sinni til varnar. Philpott var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps.

Mick og Mairead Philpott á blaðamannafundi fimm dögum eftir eldsvoðann.
Mick og Mairead Philpott á blaðamannafundi fimm dögum eftir eldsvoðann.
Sex börn fórust í brunanum.
Sex börn fórust í brunanum. PAUL ELLIS
Sannað þykir að Mick Philpott og Mairead kona hans, ásamt …
Sannað þykir að Mick Philpott og Mairead kona hans, ásamt Paul Mosley, vini þeirra, hafi notað bensín til að kveikja í húsinu meðan börnin sex sváfu í rúmum sínum. ANDREW YATES
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert