Tekinn af lífi fyrir barnsmorð

Dauðadómi yfir tæplega sextugum bandarískum karlmanni, Larry Mann, var framfylgt …
Dauðadómi yfir tæplega sextugum bandarískum karlmanni, Larry Mann, var framfylgt í Flórída í nótt, en hann myrti tíu ára gamla stúlku árið 1980. ABC News

Dauðadómi yfir tæplega sextugum bandarískum karlmanni, Larry Mann, var framfylgt í Flórída í nótt. Dóminn hlaut hann fyrir að myrða hina tíu ára gömlu Elisu Nelson árið 1980.

Elisa litla var á leið í skólann er hún varð á vegi hans. Mann, sem var dæmdur barnaníðingur, misþyrmdi henni ekki kynferðislega, en barði hana til óbóta uns hún lést. Hann hafði margoft farið fram á endurupptöku málsins, sem var nokkrum sinnum heimiluð, en dómurinn var ávallt sá sami.

Í yfirlýsingu frá Jeffrey Nelson, bróður Elisu, fer hann hörðum orðum um dómskerfi þar sem það tekur 32 ár að fullnægja dómi yfir manni sem játaði að hafa numið á brott og myrt tíu ára gamalt barn. „Hér eru engir sigurvegarar,“ segir Nelson í yfirlýsingunni. „Dauði hans færir okkur Elisu ekki aftur eða bindur enda á sorg okkar. En við munum ekki lengur þurfa að kveljast vegna endalausra lagaflækja vegna málsins.“

Í frétt ABC-sjónvarpsstöðvarinnar segir að Mann hafi numið stúlkuna á brott, farið með hana í skógarlund, skorið hana á háls og barið hana með stöng. Síðan fór hann heim til sín og skar sig á púls og sagði síðan við lögreglu að hann hefði gert „svolítið heimskulegt“. Nokkrum dögum síðar fann eiginkona hans blóðugan miða í fórum hans sem var frá móður Elisu til kennara hennar.

Þetta var fyrsta aftakan í Flórída á þessu ári og fleiri eru ekki fyrirhugaðar í ár. Mann var sjöundi maðurinn sem tekinn var af lífi í Bandaríkjunum í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert