Japan nýtur verndar Bandaríkjanna

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að stjórnvöld í Washington væru „skuldbundin að fullu“ til þess að verja Japan. Orð Kerrys koma í kjölfar hótana Norður-Kóreumanna um að Tokýóborg yrði „umvafin kjarnorkueldi“. 

Kerry lét ummæli sín falla á fréttamannafundi í Tokýó ásamt kollega sínum, Fumio Kishida. Búist er við því að Norður-Kóreumenn muni skjóta eldflaug á loft á næstunni. KCNA, ríkisútvarp Norður-Kóreu, lýsti því yfir á föstudaginn að ef Japanar reyndu að skjóta niður eldflaugina myndi það þýða stríð. „Japan er alltaf í skotlínu byltingarhers okkar og ef Japan hreyfir litla fingur munu logar stríðsins snerta Japan fyrst,“ sagði í fréttaskýringu ríkisútvarpsins.

Japan er eina landið sem orðið hefur fyrir kjarnorkuárás. Her landsins hefur sett upp eldflaugavörnum í kringum höfuðborgina Tokýó og lofað því að brugðist verði við öllum hugsanlegum aðstæðum sem upp gætu komið.

John Kerry og Fumio Kishida, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Japans.
John Kerry og Fumio Kishida, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Japans. TOSHIFUMI KITAMURA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert