Reisa bókasafn til heiðurs Thatcher

Margaret Thatcher árið 1989.
Margaret Thatcher árið 1989. JOHNNY EGGITT

Aðdáendur Margrétar heitinnar Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hafa tekið sig saman og hyggjast láta reisa bóka- og minjasafn í Lundúnum henni til heiður. Er tilgangur safnsins sá að varðveita arfleifð hennar og móta framtíð íhaldsstjórnmála.

Aðstandendur hugmyndarinnar tilkynntu í gærkvöldi að þeir hygðust safna 15 milljónum evra í frjálsum framlögum til þess að reisa safnið. Á meðal þeirra muna sem þar yrðu til sýnis yrðu hinar frægu handtöskur Thatchers og bláu dragtirnar hennar. Mun fyrirmynd safnsins vera sótt til safns Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta í Kaliforníu, en þar eru geymdar milljónir skjala, ljósmynda og muna frá forsetatíð Reagans. 

„Safnið verður staður fyrir fræðimenn, nema og ferðamenn til þess að koma og læra um hið merkilega líf, hin einstöku afrek og grunngildi Margrétar Thatcher,“ sagði Ben Elliot, talsmaður hópsins að baki verkefnisins. Söfnunin mun hefjast formlega að lokinni jarðarför Thatcher sem fer fram næsta miðvikudag. Rúmlega 2.000 fyrirmönnum um allan heim hefur verið boðið í athöfnina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert