Íbúar Boston í spennufalli

Hundruð Bostonbúa söfnuðust saman á götum úti í borginni í gær til að fagna því að margra daga eftirför og sólarhrings umsátri væri lokið, eftir að 19 ára piltur sem grunaður er um aðild að sprengjuárásinni á mánudag var handtekinn skömmu fyrir eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma í nótt.

Allt í lamasessi

Milljónaborgin Boston var sem draugabær í allan gærdag þar sem lögregluyfirvöld báðu fólk að halda sig inni og fara ekki til dyra nema einkennisklæddir lögreglumenn bönkuðu. Almenningssamgöngukerfi borgarinnar lá niðri og sömuleiðis leigubílaþjónusta. Flestar stofnanir og fyrirtæki voru lokuð, þar á meðal allir háskólar borgarinnar. Borgin var í reynd lömuð og má ætla að efnahagsáhrif þessa hafi verið umtalsverð.

„Tilfinningin er eins og við höfum verið í umsátri sem loks hefur verið aflétt,“ hefur Boston Globe eftir 25 ára gömlum manni sem fagnaði ásamt fjölda fólks í miðborginni í gær. Annar íbúi sagði flesta í algjöru spennufalli. Andrúmsloftið í Boston var rafmagnað alla vikuna á meðan leitað var þeirra sem stóðu að baki hryðjuverkunum í maraþoninu á mánudag, en enginn lýsti ábyrgð þeirra á hendur sér.

Hröð atburðarás eftir myndbirtingu

Eftir að alríkislögreglan FBI birti myndir af tveimur grunuðum bræðrum á fimmtudag gerðust hlutirnir hins vegar hratt. Atburðarásin er enn nokkuð óljós en eftirförin hófst um fimm klukkustundum síðar, aðfaranótt föstudags, þegar ungur lögreglumaður hafði afskipti af bræðrunum Tamerlan og Dzhokhar Tsarnaev á skólalóð MIT-háskólans. Skotbardagi braust út þar sem lögreglumaðurinn lét lífið.

Bræðurnir lögðu á flótta á stolnum bíl og lögregla elti. Meðan á eftirförinni stóð varpaði annar bróðirinn heimasmíðuðum handsprengjum út um bílgluggann, að sögn Boston Global. Í friðsæla úthverfinu Watertown var bíllinn króaður af og skotbardagi braust út sem endaði með því að eldri bróðirinn, hinn 26 ára gamli Tamerlan, særðist alvarlega og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést.

Faldi sig undir segldúk á bát

Yngri bróðurnum, hinum 19 ára gamla Dzokhar, tókst að flýja á hlaupum og næstu klukkustundir leitaði allt tiltækt lögreglulið í Boston hans. Á meðan var borgin öll í algjörum lamasessi en lögreglumenn gengu hús úr húsi í leit að hinum grunaða.

Undir kvöld hélt lögreglan blaðamannafund þar sem tilkynnt var að ekkert hefði fundist en íbúum væri heimilt að fara út úr húsi. Það var til þess að hjón í Watertown fór út í garðinn sinn og sáu ummerki um mannaferðir við bát sem þar var geymdur undir segldúk. Þegar þau litu í bátinn sáu þau piltinn þar.

Obama segir að leitað verði svara

Hann var í kjölfarið umkringdur vopnuðum lögreglumönnum og sveimuðu þyrlur yfir. Fjölmiðlar þustu á staðinn og líkt og allan sólarhringinn á undan streymdu upplýsingar um samfélagsmiðla. Eftir rúma klukkustund var hann handtekinn og fluttur með hraði á sjúkrahús. Hann er sagður alvarlega særður en á lífi.

Barack Obama Bandaríkjaforseti flutti sjónvarpsávarp frá Hvíta húsinu eftir handtökuna í gærkvöldi. Hann sagði mikilvægum áfanga náð og hét því jafnframt að nú yrði leitað svara við því hvað bræðrunum gekk til og hvort þeir hefðu átt sér vitorðsmenn. Enn er allt á huldu um tilefni sprengjuárásarinnar.

Á Hemingway götu í hverfinu Fenway fögnuðu um 200 manns …
Á Hemingway götu í hverfinu Fenway fögnuðu um 200 manns eftir að hinn grunaðir tilræðismaður var handtekinn. AFP
Hinn 19 ára gamli Dzhokhar Tsarnaev sést hér um borð …
Hinn 19 ára gamli Dzhokhar Tsarnaev sést hér um borð í bátnum þar sem hann faldi sig illa særður og var að lokum handtekinn. AFP/CBS
Lögreglumönnum í Boston var færður matur eftir að umsátrinu langa …
Lögreglumönnum í Boston var færður matur eftir að umsátrinu langa var lokið. AFP
Íbúar Watertown klöppuðu fyrir lögreglu þegar ljóst var að hinn …
Íbúar Watertown klöppuðu fyrir lögreglu þegar ljóst var að hinn grunaði var handtekinn á lífi. AFP
Fáir voru á götum Boston fram að handtökunni í gær …
Fáir voru á götum Boston fram að handtökunni í gær aðrir en vopnaðir lögreglumenn. AFP
Nærliggjandi hús í hverfinu Watertown voru rýmd á meðan lögregla …
Nærliggjandi hús í hverfinu Watertown voru rýmd á meðan lögregla umkringdi unglingspiltinn. AFP
Barack Obama Bandaríkjafoseti flutti sjónvarpsávarp eftir handtökuna.
Barack Obama Bandaríkjafoseti flutti sjónvarpsávarp eftir handtökuna. AFP
Hinn 19 ára gamli Dzhokhar Tsarnaev var handtekinn seint í …
Hinn 19 ára gamli Dzhokhar Tsarnaev var handtekinn seint í gærkvöld.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert