Hótun um dauðarefsingu öflugt tæki

Dzhokhar Tsarnaev.
Dzhokhar Tsarnaev. -

Eitt af öðru raðast nú púslin saman varðandi hinn 19 ára gamla Dzhokhar Tsarnaev sem grunaður er um sprengjutilræðið í Boston maraþoninu. Gefið hefur verið í skyn að alríkisstjórnin muni fara fram á dauðadóm yfir piltinum en slíkt þykir sjaldgæft.

Dómari hefur varað Tsarnaev við að hann gæti átt dauðadóm yfir höfði sér ef hann reynist sekur um árásina sem varð þremur að bana og særði 264.

Sérfræðingar segja það hugsanlegt en ólíklegt miðað við það alríkisstjórnin hafi aðeins örsjaldan notað heimild til að fara fram á dauðarefsingu frá því að slíkt var bundið í lög fyrir mörgum áratugum. Aðeins þrír menn hafa verið teknir af lífi með vísan til ákvæðisins. 59 fangar bíða aftöku í alríkisfangelsi í Indiana-ríki.

Hins vegar hafa ríki Bandaríkjanna samanlagt tekið 1.300 fanga af lífi frá því að dauðarefsing var aftur leyfð í landinu árið 1976. 3.100 fangar til viðbótar bíða örlaga sinna á dauðadeild í fangelsum víðs vegar um Bandaríkin.

Þekktasta dæmið um dauðarefsingu alríkisfanga var yfir Timothy McVeigh, sem var tekinn af lífi 11. júní 2011 en hann sprengdi sprengju í Oklahoma árið 1995 og drap 168 manns.

Juan Garza var sá næsti sem tekinn var af lífi af alríkisstjórninni, en hann var dæmdur fyrir að drepa þrjá aðra fíkniefnasala í Texas. Hann var líflátinn 19. júní árið 2001. 

Innan við tveimur árum síðar var svo hermaðurinn fyrrverandi Louis Jones tekinn af lífi fyrir að nauðga og myrða konu í Texas.

En í öðrum alvarlegum tilræðum hefur alríkisstjórnin ekki beitt heimild um dauðarefsingu.

Sem dæmi var hinn svokallaði „Unabomber“, Ted Kaczynski, dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að drepa þrjá og særa 23. Eric Rudolph fékk einnig lífstíðarfangelsi fyrir að drepa tvo og særa 150 með sprengju á Ólympíuleikunum í Atlanta.

Sérfræðingar segja að nokkur tími muni líða áður en ákveðið verði hvort að farið verði fram á dauðarefsingu yfir Tsarnaev.

„Hótun um dauðarefsingu er mjög magnað tæki til að fá einhvern til samvinnu, til að segja það sem hann veit,“ segir Rosanna Cavallaro við Suffolk-háskóla.

Saksóknarinn Eric Holder mun ákveða hvort farið verður fram á dauðarefsingu. Sumir sérfræðingar telja það líklegt á þessu stigi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert