Átök á Everest

AFP

Fjallgöngumenn á leið upp á topp hæsta fjalls heims, Everest, segja að átök hafi brotist út á milli tveggja þekktra evrópskra fjallgöngumanna og innlendra leiðsögumanna um helgina. Rannsakar lögregla nú málið.

Tvímenningarnir, Svisslendingurinn Ueli Steck, sem þykir einn besti fjallamaður heims, og Ítalinn Simone Moro, sem hefur klifið Everest fjórum sinnum, voru komir í 7.470 metra hæð þegar þeir lentu í illdeilum við serpa sem voru að fara á tindinn með hóp.

Bandarískur fjallgöngumaður sem AFP-fréttastofan ræddi við segir að Steck og Moro hafi verið beðnir að bíða um stund á meðan hópur Nepala gengi frá línum fyrir sinn hóp.

Evrópubúarnir neituðu að verða við tilmælunum og héldu för sinni áfram en þeir eru að fara nýja leið upp á tindinn án aukasúrefnis.

„Sjerparnir báðu þá um að hætta að klifra fyrir ofan sig á meðan þeir gengju frá línunum en þeir hlustuðu ekki á þá. Síðan þegar ís féll á sjerpana urðu þeir mjög reiðir,“ hefur AFP-fréttastofan eftir fjallgöngumanni sem var á svæðinu.

Síðar þennan sama dag (laugardag) fóru sjerparnir í tjaldbúðir þeirra Stecks og Moros og köstuðu grjóti í tjöld þeirra. Þegar tvímenningarnir komu út úr tjöldum sínum lentu þeir í rifrildi við sjerpana og stimpingum.

Þegar sjerparnir yfirgáfu tjaldbúðirnar tóku tvímenningarnir og félagar þeirra saman búnað sinn og lögðu af stað niður fjallið. Er talið að þeir hafi hætt við að reyna að ná á toppinn.

Samkvæmt upplýsingum AFP-fréttastofunnar rannsakar lögregla nú málið en Anish Gupta hjá Cho-Oyu Trekking, fyrirtækinu sem skipuleggur ferðalag Evrópumannanna, segist hafa fengið þær upplýsingar að viðskiptavinir þeirra hafi hunsað tilmæli leiðsögumanna og haldið áfram ferð sinni um ísilagða kletta fyrir ofan hinn hópinn.

Fyrirtækið hafi fengið þær upplýsingar að ís hafi brotnað undan leiðangursmönnunum og hafi meðal annars einn sjerpanna fengið klakastykki í andlitið. Í kjölfarið hafi deilur brotist út.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu dvaldi Steck á sjúkrahúsi í nótt skammt frá fjallinu en ekkert alvarlegt hafi amað að honum. Hann flaug síðan snemma í morgun með þyrlu aftur til baka í búðir hópsins á Everest. Ræða þeir félagar nú hvort þeir eigi að gera aðra tilraun til þess að ná á topp fjallsins. 

Yfir þrjú þúsund manns hafa náð á topp Everest allt frá leiðangri þeirra Edmunds Hillarys og Tenzings Norgays árið 1953. Á hverju ári fara hundruð fjallgöngumanna af stað upp Everest í aprílmánuði en í ár eru þrír Íslendingar að reyna að ná á topp Everest.

Upplýsingar um Steck á Wikipedia

Upplýsingar um Moro á Wikipedia

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert