Fyrsti konungur Hollands í 123 ár

Hollendingar undirbúa nú krýningu nýs konungs landsins á morgun þegar Vilhjálmur Alexander tekur við af móður sinni, Beatrix drottningu, og verður fyrsti konungur Hollands í 123 ár.

Drottningin tilkynnti í vetur að hún hefði ákveðið að stíga af stóli og afhenda honum krúnuna, líkt og móðir hennar, Júlíana drottning, gerði þegar Beatrix var krýnd fyrir 33 árum síðan.

Sjálf hafði Júlíana drottning tekið við völdum af móður sinni, Vilhelmínu drottningu, árið 1948, en Vilhelmína lifði til ársins 1962 og Júlíana lifði í 21 ár eftir að hún lét af völdum. Hún lést árið 2004.

Búist er við því að Hollendingar klæðist margir appelsínugulu í tilefni dagsins og að höfuðborgin, Amsterdam, verði meira og minna appelsínugul.

Búist er við að milljónir manna, innanlands og utan, mæti á stræti borgarinnar til að kveðja hina farsælu drottningu eftir 33 ára þjónustu hennar við land og þjóð og til að hylla nýkrýndan konung sinn. Beatrix drottning tekur aftur upp nafnbótina prinsessa þegar hún lætur af völdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert