Hafa staðfest notkun efnavopna í Sýrlandi

Frá átakasvæðum í Sýrlandi.
Frá átakasvæðum í Sýrlandi. AFP

Stjórnarandstæðingar í Sýrlandi hafa beitt efnavopnum í hernaði sínum. Þetta staðfesta Sameinuðu þjóðirnar. Um er að ræða taugagasið sarín. Rannsókn málsins er ekki lokið og því er ekki útilokað að stjórnarherinn hafi einnig gerst sekur um beitingu efnavopna.

„Samkvæmt þeim vitnisburðum sem okkur hafa borist hafa uppreisnarmenn beitt efnavopnum, þeir hafa beitt sarín-gasi,“ sagði Carla del Ponte, sem rannsakar mannréttindabrot á vegum Sameinuðu þjóðanna í viðtali við svissneska útvarpsstöð í gærkvöldi. „Við þurfum að dýpka rannsóknina og fá frekari staðfestingu, en samkvæmt þeim gögnum sem við höfum nú, þá er ljóst að stjórnarandstæðingar hafa beitt sarín-gasi,“ sagði hún.

Sarín er öflugt taugaeitur sem var þróað af vísindamönnum nasista á fjórða áratug síðustu aldar. Það hefur verið notað sem skordýraeitur, en hefur verið notað í árásarskyni í a.m.k. þrígang, þar af tvisvar sinnum af japönskum sértrúarsöfnuði. Gasið dregur fólk til dauða með því að lama taugakerfið og afar lítinn skammt þarf til þess að skaða fólk.

Tyrknesk yfirvöld láta nú gera blóðprufur á Sýrlendingum sem hafa flúið heimkynni sín yfir landamærin til Tyrklands í því skyni að kanna hvort þeir hafi orðið fyrir áhrifum efnavopna. Niðurstöður prufanna liggja ekki fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert