Assad sakaður um þjóðernishreinsanir

Stuðningsmenn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta í Jemen mótmæltu loftárásum Ísraela á …
Stuðningsmenn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta í Jemen mótmæltu loftárásum Ísraela á Sýrland á dögunum. AFP

Utanríkisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, sakar Bashar al-Assad forseta Sýrlands um að grípa til þjóðernishreinsana til að tryggja rími fyrir alavíta, trúarhópinn sem hann tilheyrir sjálfur en er í minnihluta í Sýrlandi.

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa tekið afstöðu með uppreisnarmönnum í Sýrlandi sem reyna að steypa stjórn Assads af stóli. Tyrkir eru að meirihluta súnnímúslímar.

Fjölskylda Assads hefur í margar kynslóðir verið áhrifamikil meðal alavíta, sem taldir hafa verið sértrúarhópur shíta-múslíma. Samfélag alavíta er fjölmennast í Sýrlandi, þótt þeir séu í minnihluta þar, en þá er einnig að finna í Líbanon og Tyrklandi.

Tugir súnnímúslíma teknir af lífi

„Við höfum áhyggjur af því að atburðurinn í Banias sé merki um að [Assad] hafi gripið til nýrra aðferða til að tryggja áhrif sín, með því að stunda þjóðernishreinsanir á ákveðnum svæðum,“ sagði Davutoglu í viðtali sem birtist í dagblaðinu Hurriyet í dag.

Ráðherrann vísaði til borgarinnar Banias við Miðjarðarhaf, þar sem eftirlitsmenn segja að a.m.k. 62 hafi verið drepnir í hverf súnnímúslima. Borgin er sögð mikilvæg flutningsleið til nágrannaríkisins Líbanon.

„Þessi nálgun hjá honum er svo kallað plan-b, sem byggir á því að egna trúarhópum saman til að skapa olnbogarými fyrir ákveðinn hóp,“ sagði Davutoglu í viðtalinu og gaf til kynna að Assad reyni þannig að tryggja yfirráðasvæði fyrir alavíta allt frá borginni Homs til landamæra Líbanon.

„Þetta er hættulegur leikur. Þetta eru þjóðernishreinsanir,“ sagði utanríkisráðherrann enn fremur. „Markmiðið er að ógna íbúum og þvinga þá þannig til að yfirgefa svæðið. Staðreyndin er sú að meirihluti þeirrar milljónar flóttamanna sem fór til Líbanon er súnnímúslímar.“

Forsætisráðherra Tyrklands, Tayyip Erdogan, sagðist í gær vera harmi sleginn yfir ljósmyndum af börnum sem hafi verið myrt af stjórnarher Assads. Hann kallaði eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna grípi inn í hið fyrsta vegna morðanna í Banias.

Stillimynd úr myndskeiði sem sett var inn á YouTube og …
Stillimynd úr myndskeiði sem sett var inn á YouTube og sýnir lík í húsi í hverfi þar sem a.m.k. 62 súnnímúslimar voru að sögn drepnir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert