Rússneska draugaskipið finnst ekki

Rússneska draugskipið Lyubov Orlova.
Rússneska draugskipið Lyubov Orlova. AFP

Ekkert er vitað um afdrif rússneska draugaskipsins Lyubov Orlova sem rekið hefur stjórnlaust um Norður-Atlantshafið síðan í janúar eftir misheppnaða tilraun til þess að koma því í brotajárn. Kanadíska strandgæslan vissi síðast um staðsetningu skipsins 12. mars síðastliðinn samkvæmt fréttavef ríkisútvarps Kanada. Skipið virtist þá vera að reka í átt til Íslands eða Írlands.

Strandgæsla Írlands gerði víðtæka leit að skipinu með tveimur flugvélum fyrir um mánuði miðað við hugsanlegt rek þess, að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Sú leit hefði hins vegar engan árangur borið. Hún segir að fyrir vikið hafi engin ákvörðun verið tekin um það hvort skipið skuli talið sokkið eða ekki. Einfaldlega séu ekki neinar vísbendingar um afdrif þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert