Sigruðu Everest fyrir 60 árum

Sextíu ár eru í dag frá því Nýsjálendingurinn Edmund Hillary og Sérpinn Tenzing Norgay urðu fyrstir manna til að klífa tind Everest,  hæsta fjalls í heiminum.

Það sem af er maí mánuði hafa um 500 manns náð þessum áfanga í ár en maímánuður þykir sá besti til þess að klífa Everest. Þar á meðal eru tveir Íslendingar, þeir Ingólfur Geir Gissurarson og Leifur Örn Svavarsson. Leifur Örn er fyrsti Íslendingurinn sem klifið hefur tind Everest norðanmegin í fjallinu en sú leið er mun fáfarnari og erfiðari en sú sem venjulega er farin. Alls hafa því sex Íslendingar staðið á toppi Everest.

Á sama tíma og ferðaþjónusta tengd Everest er mikilvæg fyrir íbúa Nepal er barnabarn Tenzing, Tashi Tenzing, 49 ára, á því að gæta verði að því að vernda þurfi Himmalaya fyrir ágangi ferðamanna.

Everest er 8.848 metra hátt og nefnt eftir breska landmælingamanninum Sir George Everest (1790-1866). Gerðar höfðu verið átta tilraunir til að klífa tindinn þegar þeim Hillary og Tenzing tókst það loks fyrir sextíu árum. Þeir voru aðeins í fimmtán mínútur á tindinum vegna skorts á súrefni. Flestir Everest-farar nota súrefniskúta en tveir göngugarpar, Reinhold Messner og Peter Habeler, urðu fyrstir til að klífa tindinn án súrefnisbirgða í maí 1978.

Til þess að fagna sextíu ára afmælinu mun sonur Hillarys, Peter, og sonur Norgays, Jamling, taka þátt í athöfn í Lundúnum ásamt Elísabetu Englandsdrottningu. Eins verður afmælinu fagnað með hreinsunarátaki á Everest og í Katmandu munu margir þeirra sem hafa klifið Everest taka þátt í hátíðarkvöldverði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert