Neitar að gefa samkynhneigða saman

Borgarstjórinn í Arcangues neitar að gefa Jean-Michel Martin og Guy …
Borgarstjórinn í Arcangues neitar að gefa Jean-Michel Martin og Guy Martineau-Espel saman. GAIZKA IROZ

Samkynhneigt par í suðvesturhluta Frakklands hefur kært borgarstjóra sem neitar að gefa það saman. Lög sem heimila hjónavígslu para af sama kyni voru samþykkt þar í landi í vor.

Jean-Michel Colo, borgarstjórinn í Arcangues, hefur valdið miklum deilum með því að neita að gefa þá Jean-Michel Martin og Guy Martineau-Espel saman. Lögmaður mannanna segist hafa lagt fram kæru á hendur Colo fyrir mismunun og fyrir að neita að framfylgja opinberum skyldum sínum. Colo, sem er 60 ára, hefur verið borgarstjóri í þrjátíu ár. Hann á yfir höfði sér fimm ára fangelsi og allt að 12 milljón króna sekt.

„Í mínum huga er hjónaband á milli konu og karls til að þau geti átt börn. Ég er ekki að mismuna þar sem par af sama kyni getur ekki fjölgað sér. Þetta er skopstæling af jafnrétti, þetta er ein stór lygi,“ segir Colo og bætir við að hann færi frekar í gálgann heldur en að láta undan.

Lögin, sem heimila einnig pörum af sama kyni að ættleiða börn, voru mjög umdeild í landinu og var hart tekist á um lagasetninguna. Hjónavígslurnar fara fram á skrifstofum borgarstjóra eða bæjarstjóra og er undirbúningsferlið, hvað varðar skjalagerð, fjórar vikur. Frakkland var fjórtánda landið sem setur í lög að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband. Fyrsta hjónavígslan átti sér stað 29. maí sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert