Undirföt Monicu Lewinsky boðin upp

Monica Lewinsky og undirfötin.
Monica Lewinsky og undirfötin.

Svört undirföt sem upphaflega voru í eigu fyrrverandi lærlings Hvíta hússins, Monicu Lewinsky, eru meðal hluta sem boðnir verða upp í Los Angeles í vikunni.

Meðal annarra hluta sem boðnir verða upp er bréf undirritað af Bill Clinton til ástmanns Lewinsky og bréf frá Lewinsky þar sem m.a. stendur: „Er ég góð eða hvað í að ljúga (e. am I good at lying through my teeth or what).

Alls verða 32 hlutir boðnir upp en allir voru þeir hluti af rannsókn saksóknarans Kenneths Starr í máli gegn forsetanum, einu mesta hneykslismáli 20. aldarinnar. Var forsetinn sakaður um embættisglöp.

Bréfið frá Clinton til ástmanns Lewinsky, Andys Bleilers, var skrifað að hennar beiðni á bréfsefni Hvíta hússins. Bréfið er vélritað en undirritað af forsetanum. Í bréfinu óskar Clinton Bleiler til hamingju með afmælið í febrúar árið 1996.

Bleiler var leiklistarkennari Lewinsky. Þau áttu í ástarsambandi í mörg ár, m.a. á þeim tíma sem hún átti einnig í innilegu sambandi við Clinton, er hann var forseti Bandaríkjanna.

Uppboðið fer fram í uppboðshúsinu Nate D. Sanders og stendur til morgundagsins.

Clinton var kærður fyrir embættisbrot í desember árið 1998 fyrir að ljúga til um samband sitt við Lewinsky. Hann var sýknaður af þinginu í febrúar árið 1999.

Bill Clinton ræðir við Monicu Lewinsky og aðra starfsmenn Hvíta …
Bill Clinton ræðir við Monicu Lewinsky og aðra starfsmenn Hvíta hússins eftir að hann var endurkjörinn forseti 1996. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert