Nicaragua og Venezuela bjóða Snowden hæli

Nicolas Maduro, forseti Venezuela, segist tilbúinn til að veita bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden pólitískt hæli. Daniel Ortega, forseti Nicaragua, segist ennfremur vera tilbúinn til að veita honum hæli ef aðstæður leyfa.

Snowden hefur dvalist á flugvellinum í Moskvu síðustu daga, en bandarísk stjórnvöld ógiltu vegabréf hans. Þau vilja að hann snúi heim til Bandaríkjanna og svari til saka fyrir að hafa ljóstrað upp um ríkisleyndarmál.

Málið er ekki leyst þó að Snowden hafi fengið boð um hæli í S-Ameríku því það verður enginn hægðarleikur fyrir hann að komast þangað. Flugvél, sem er með hann um borð, þarf að fá heimild til að fljúga í gegnum lofthelgi ríkja á flugleiðinni. Það getur reynst snúið eins og kom í ljós þegar grunur vaknaði um að Snowden væri um borð í flugvél forseta Bólivíu fyrir helgi. Þá neyddist flugstjóri vélarinnar til að lenda henni í Vínarborg eftir að nokkur Evrópuríki neituðu honum um að fljúga inn í lofthelgi þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert