Hjónabönd samkynhneigðra brátt lögleidd

Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigða veifaði fána sínum fyrir utan þinghúsið …
Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigða veifaði fána sínum fyrir utan þinghúsið í London. AFP

Frumvarp um lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra var samþykkt í lávarðadeild breska þingsins í dag. Fjöldi baráttufólks fyrir réttindum samkynhneigðra fagnaði fyrir utan þinghúsið eftir að niðurstaðan lá fyrir.

Stuðningsmenn frumvarpsins á meðal þingmanna gengu með bleik blóm í tilefni dagsins. Lávarðadeildin samþykkti að senda frumvarpið aftur til neðri deildarinnar þar sem þingmenn munu fara yfir breytingatillögur ríkisstjórnarinnar áður en frumvarpið verður samþykkt sem lög.

Fastlega er búist við því að frumvarpið verði samþykkt þar sem að neðri deildin hefur áður samþykkt það með 390 atkvæðum gegn 148. Frumvarpið gerir samkynhneigðum pörum kleift að gifta sig bæði borgarlega og með trúarlegum athöfum í Englandi og Wales þrátt fyrir að Englandskirkja bjóði ekki upp á athafnir fyrir pör af sama kyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert