Var nauðgað og fékk langan dóm

AFP

Ung norsk kona hefur verið dæmd í sextán mánaða langt fangelsi í Dúbaí  fyrir að hafa stundað kynlíf utan hjónabands eftir að hafa leitað til lögreglu eftir nauðgun.

Marte Deborah Dalelv, 24 ára, er frá bænum Tønsberg en hún segir sögu sína á vef Verdens Gang. Hún varar aðrar konur við ferðalögum til Mið-Austurlanda og segir að það sé lítið að marka sögur um hvað gott sé að vera í Dúbaí.

6. mars sl. var henni nauðgað og á þriðjudaginn var hún dæmd í fangelsi fyrir að hafa stundað kynmök án þess að vera gift og að hafa drukkið áfengi án heimildar. Allt hófst þetta með ferðalagi til Dúbai með vinnufélögum. Síðasta kvöldið í ferðinni fór hún út á lífið með vinnufélögum af báðum kynjum. Morguninn eftir vaknaði hún án klæða á maganum. Henni hafði verið nauðgað. Hún leitaði til lögreglunnar og þar hófst martröðin fyrir alvöru. Hún hafi fljótt fundið að lögreglan tryði henni ekki en hún var spurð að því hvort hún hafi leitað til lögreglunnar þar sem hún hafi ekki verið nægilega ánægð með kynlífið.

Dalelv var síðan varpað í fangaklefa á lögreglustöðinni þar sem henni var haldið í fjóra daga á grundvelli þess að hafa stundað kynlíf utan hjónabands. Þar hafi verið ískalt og ekki svefnrými fyrir alla þá sem þurftu að hírast í klefanum. Lögreglan tók af henni veskið og vegabréfið og alla peningana. Loks fékk hún fengið lánað símakort svo að hún gat hringt í fjölskyldu sína og látið hana vita hvað hafi gerst.

Mál hennar verður tekið fyrir hjá áfrýjunardómstóli í Dúbaí 5. september. Þangað til er óvíst hvort hún getur mætt í skólann í Ósló í haust en hún má ekki fara frá Dúbaí fyrr en niðurstaða liggur fyrir í málinu.

Sjá nánar á vef VG

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert